Gengu Skólavörðustíg til stuðnings Kúrdum

Gengið var frá Hallgrímskirkju, niður Skólavörðustíg og þaðan að Alþingi.
Gengið var frá Hallgrímskirkju, niður Skólavörðustíg og þaðan að Alþingi. mbl.is/​Hari

Samtökin Ísland-Kúrdistan stóðu fyrir samstöðugöngu í dag frá Hallgrímskirkju, niður Skólavörðustíg og þaðan á Austurvöll. Héldu göngumenn á skiltum og borðum til stuðnings málstað Kúrda.

Kúrdar í Sýrlandi hafa undanfarið verið í miðju alþjóðlegs deiluefnis eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ákvað að draga hluta herliðs Bandaríkjamanna frá svæðum við landamæri Sýrlands og Tyrklands. Í kjölfarið gerðu Tyrkir árás inn á sýrlenska svæðið, en þeir líta á her­sveit­ir Kúrda í Sýr­landi sem hryðju­verka­menn og hafa áhyggj­ur af því að þeim verði beitt gegn Tyrklandi. Kúr­d­ar hafa lengi viljað stofna sjálf­stætt ríki og hafa gert kröfu um landsvæði í Tyrklandi, Írak og Íran auk Sýr­lands.

Töldu Kúrdar að með ákvörðun sinni hefðu Bandaríkjamenn svikið sig og gerðu í kjölfarið samkomulag við sýrlensk stjórnvöld. Þótt tilkynnt hafi verið um vopnahlé á fimmtudaginn sem gildir í 120 klukkustundir, þá var það gert með þeim fyrirvara að Kúrdar myndu taka herlið sitt til baka af svæði við landamærin sem Tyrkir skilgreina sem öryggissvæði.

Samstöðuganga með Kúrdum í dag.
Samstöðuganga með Kúrdum í dag. mbl.is/​Hari
mbl.is