Hafði í hótunum við lögreglu

Talsvert var um ölvun og ónæði í höfuðborginni í gærkvöldi …
Talsvert var um ölvun og ónæði í höfuðborginni í gærkvöldi og í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögregla hafði afskipti af tveimur ölvuðum mönnum á tjaldsvæðinu í Laugardal á sjöunda tímanum í gærkvöldi, en í dagbók lögreglu segir að þeir hafi verið með ógnandi hegðun og til vandræða.

Rúmlega tveimur klukkustundum síðar var aftur kallað eftir aðstoð vegna mannanna og var annar þeirra þá handtekinn grunaður um eignaspjöll og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Þá voru tveir menn handteknir í miðbæ Reykjavíkur á sjötta tímanum í gærkvöld. Annar þeirra hafði verið með ónæði við Lindargötu og var með hótanir og ofbeldi við lögregluþjóna þegar þeir mættu á staðinn. Hinn maðurinn hafði verið til vandræða við fyrirtæki í Ánanaust og var hann handtekinn grunaður um eignaspjöll, hótanir og fleira.

Rétt fyrir klukkan fjögur í nótt var maður svo handtekinn í miðborginni grunaður um líkamsárás. Sá fór ekki að fyrirmælum lögreglu og reyndi að tálma störf hennar.

Skömmu síðar var maður handtekinn vegna ónæðis og fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu. Rétt fyrir klukkan fimm var maður handtekinn á vettvangi innbrots á Skólavörðustíg.

mbl.is