Hef ofurkraft sem kona

„Ég er mjög þakklát fyrir að vera kona í þessum …
„Ég er mjög þakklát fyrir að vera kona í þessum bransa því mér finnst ég hafa einhvern ofurkraft; eins konar þriðja auga,“ segir leikstjórinn og handritshöfundurinn Silja Hauksdóttir. mbl.is/Ásdís

Höfnin blasir við fyrir utan gluggann og Harpa gleður augað í gráu haustveðrinu þar sem blaðamaður situr með kaffið sitt og bíður eftir leikstjóranum Silju Hauksdóttur. Hún skundar inn í Marshall-húsið þar sem viðtalið fer fram, kápan flaksar til og það gustar af henni. Hún Silja er töff týpa; með sitt dökka hár, skæran varalit og undur vatnsblá augu. Undir kápunni leynist hvítur samfestingur sem fer henni vel. En við erum ekki komnar til að ræða tískuna eða töffheit, heldur skemmtilegan feril hennar og nýjustu kvikmynd, Agnesi Joy, sem frumsýnd var á fimmtudaginn.

Að segja sögur með öðrum

Vegferðin í leikstjórastólinn hefur verið löng og skemmtileg en Silja hóf hana í heimspeki í Háskólanum um tvítugt. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og nokkur háskólapróf hafa bæst í safnið. Silja lærði kvikmyndagerð í Tékklandi, handritaskrif í Hollandi og endaði svo á meistaraprófi í sviðslistum frá MHÍ í fyrra. Á leiðinni hefur hún leikstýrt fjölda verka, skrifað bók og nokkur handrit, gert eina bíómynd og eignast dóttur, svo eitthvað sé nefnt. Agnes Joy er því kvikmynd númer tvö, en fyrsta kvikmynd Silju var Dís, frá árinu 2004, sem gerð var í kjölfar samnefndrar bókar sem hún skrifaði ásamt tveimur vinkonum sínum, þeim Birnu Önnu Björnsdóttur og Oddnýju Sturludóttur.

Hvað heillar þig við leiklist og kvikmyndalist?

„Í grunninn það að segja sögur með öðru fólki. Og leita að kjarna sögunnar í samstarfi og í speglun. Það er það skemmtilegasta við þetta,“ segir Silja og segist hún mest hafa unnið í sjónvarps- og kvikmyndageiranum en hún hefur m.a. leikstýrt gamanþáttum á borð við Ástríði, Stelpunum svo og áramótaskaupum.

„Mér finnst ekki erfitt að skrifa með öðrum en það skiptir máli að fólk sé með sömu áherslur, vilji segja sömu söguna í grunninn. Því minna sem við erum hrædd við að vera ósammála því auðveldara verður það. Þegar fólk velst saman sem getur skipst á skoðunum án þess að egóið sé að þvælast fyrir og það er með sömu hagsmuni að leiðarljósi skiptir ekki máli þótt það séu einhver smá ágreiningsmál. Það blessast alltaf.“

Vantar sögur um konur

Silja hefur unnið mikið með konum, skrifað handrit með konum og gert kvikmyndir og þætti um konur, eins og Ástríði, Stelpurnar, Dís og nú Agnesi Joy. Spurð um ástæðuna fyrir þessum kvenlæga vinkli hugsar Silja sig vandlega um áður en hún svarar.

„Það er alveg klárt að mér finnst þessar sögur vanta. Svo eru í kringum mig konur og vinkonur sem eru að gera áþekka hluti og ég og við veljumst saman til að vinna að verkefnum. Ég er samt ekki búin að leggja þær skyldur á mig að ég megi bara segja kvennasögur. En mig langar að gera það en mun alveg taka mér leyfi til að gera sögur með körlum ef ég vil. Eins og staðan er núna finnst mér mikil þörf á kvennasögum. Þegar ég sé íslenskar myndir sem hverfast um kvenkaraktera, eins og við höfum séð svolítið upp á síðkastið, þá hríslast um mig góð tilfinning og ég átta mig á hvað ég þarf svona sögur sjálf sem áhorfandi. Þegar sögur með konum í forgrunni hætta að vera skilgreindar sem „kvennasögur“, eins og það sé sérstök hilla á vídéóleigunni eins og karatemyndir, dansmyndir eða geimmyndir, þá mun ég gleðjast.“  

Finnst þér kvenleikstjórar nálgast kvikmyndamiðilinn á annan hátt en karlar?

„Ég veit það ekki. Yfirborðskennda svarið væri sennilega að svara bara játandi. En mér finnst pínu gaman að skilja það eftir opið og vita það ekki. Kannski finna einhverjir mun sem hafa prófað að vinna með bæði kven- og karlkyns leikstjórum. Ef Silja væri karlmaður og væri að gera kvikmyndir þá myndi hann sennilega gera öðruvísi myndir en ég geri. En ég er farin að líta á þetta sem „superpower“, að hafa það sem við köllum kvenlega eiginleika sem listamaður. Það er eitthvað mjög dýrmætt sem kvenkynslistamaður hefur því hennar reynsluheimur er sannarlega annar heldur en hjá karlkyns kollega, og ég lít á það sem gjöf,“ segir Silja.

„Ég er þess vegna mjög þakklát fyrir að vera kona í þessum bransa því mér finnst ég hafa einhvern ofurkraft; eins konar þriðja auga.“

„Okkur fannst spennandi að skoða mæðgnasamband út frá mæðgum sem …
„Okkur fannst spennandi að skoða mæðgnasamband út frá mæðgum sem eru ekki blóðskyldar. Líka af því að við Íslendingar erum rosalega uppteknir af skyldleika; hver er líkur hverjum og hvernig, það er nánast þráhyggja hjá okkur,“ segir Silja. mbl.is/Ásdís

Miðaldra kona á krossgötum

„Agnes Joy er nákvæmlega eins og hún þurfti að vera. Þetta ævintýri byrjaði allt við eldhúsborð þar sem við Gagga (Jónsdóttir), sem er ein af handritshöfundum, sátum og skoðuðum hugmynd frá Mikael Torfasyni,“ segir hún en þess má geta að þriðji handritshöfundur er Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir.

„Okkur fannst svo áhugavert að hugsa: hvar er fimmtug kona í dag? Hvernig áskorunum stendur hún frammi fyrir í frekar karllægum heimi með kvenlegar skyldur og flókna ábyrgð? Okkur fannst hennar hversdagsdrama hljóta að vera eitthvað djúsí og við skoðuðum það nánar. Og sú varð raunin.“

Af hverju finnst þér þetta spennandi æviskeið hjá konu?

„Ég veit það ekki. Hún er á krossgötum. Hún er mjög íslensk kona með margar skyldur. Ekki bara í vinnunni heldur líka í einkalífinu. Mamma hennar er öldruð og Rannveig ber þá ábyrgð ein og dóttirin er að þroskast og henni finnst það flókið og á erfitt með að finna hvar og hvernig hún á að sleppa tökunum á uppeldinu og leyfa dóttur sinni að reyna sig. Hún er líka sjálf að eldast og finnst það flókið og vill ekki gangast við því. Þannig að það er allt um það bil að fara að breytast og það er spennandi að skoða hvernig hún tekst á við það,“ segir hún og segir Rannveigu alveg geta verið þessa dæmigerðu íslensku miðaldra konu. 

Langar biðraðir fyrir sjálfu

Asíubúar fengu að berja myndina augum á undan Íslendingum en hún var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíð í Busan í Suður-Kóreu fyrir skemmstu.  

„Þetta er stærsta kvikmyndahátíðin í Asíu og það var magnað að sýna hana í fyrsta sinn með áhorfendum svona rosalega langt í burtu frá heimili sínu. Ég var með mikla innri væntingastjórnun þegar ég gekk inn í salinn en það var magnað að finna að þau tengdu,“ segir hún því hún hafi gert myndina með íslenska áhorfendur í huga.

Donna Cruz og Katla Margrét Þorgeirsdóttir fara með aðalhlutverkin í …
Donna Cruz og Katla Margrét Þorgeirsdóttir fara með aðalhlutverkin í myndinni Agnes Joy. Hér eru þær á kvikmyndahátíð í Suður-Kóreu ásamt Silju Hauksdóttur. Ljósmynd/Gagga Jónsdóttir

„Henni var mjög vel tekið og mér leið eins og áhorfendur hefðu í alvöru náð henni. Það voru umræður á eftir og við hittum heilmargar mægður sem komu saman að heilsa upp á okkur. Svo voru þarna líka miðaldra kóreskir menn sem sögðu myndina hafa hreyft við sér, og mér þótti vænt um það.“

Silja segir fólk hafa staðið í röðum til þess að fá eiginhandaráritanir, sérstaklega frá Donnu og Kötlu.

„Svo voru teknar svona átta hundruð „selfies“. Mjög sætt.“

Þú ert að vinna mikið með samskipti í lífi venjulegra Íslendinga. Er nógur efniviður þar?

„Jáhá. Það kveikir mikið í mér. Ég tengi sterkt við það sjálf og svo hef ég svo mikinn áhuga á breyskleikum okkar og brestum. Og þeir skína mikið í gegn í samstuði við okkar nánustu. En brestirnir og breyskleikarnir eru auðvitað erfiðastir í manni sjálfum og gaman að skoða hvernig eða hvort maður tekst á við þá. Það er eilífðarverkefni og því mikill og spennandi efniviður sem snertir okkur flest.“

Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »