Ragnar Þór endurkjörinn formaður LÍV

Frá 31. þingi Landssambands íslenzkra verzlunarfélaga.
Frá 31. þingi Landssambands íslenzkra verzlunarfélaga. Ljósmynd/VR

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, var endurkjörinn formaður Landssambands íslenzkra verzlunarmanna, á 31. þingi sambandsins sem lauk nú í dag á Akureyri. Engin mótframboð bárust.

Á fundinum var samþykkt ályktun um að nauðsynlegt sé að auka atvinnulýðræði til að bregðast við breytingum vegna fjórðu iðnbyltingarinnar. Fram kemur í tilkynningu á vef VR að Ísland standi langt að baki öðrum löndum í þessum efnum og að kominn sé tími til að standa þeim jafnfætis. Þá var á þinginu einnig lögð áhersla á styttingu vinnuvikunnar.

Ályktun þingsins í heild sinni:

31. þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna telur að nauðsynlegt sé að auka atvinnulýðræði til þess að bregðast við þeim breytingum sem við nú stöndum frammi fyrir vegna þess sem nefnt hefur verið einu nafni fjórða iðnbyltingin. Ísland stendur langt að baki þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við að þessu leyti og teljum við tíma til kominn að við stöndum þeim jafnfætis. Vinna hefur nú þegar hafist innan aðildarfélaga LÍV við að móta stefnu og hugmyndir um framkvæmd atvinnulýðræðis hérlendis. Er þetta gert til þess að tryggja að afrakstur tækniframþróunar skili sér til launafólks og samfélagsins alls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert