Vetrarlegt veður eftir helgi

Um miðja vikuna má búast við frosti víðast hvar um …
Um miðja vikuna má búast við frosti víðast hvar um landið. Kort/Veðurstofa Íslands

Strax á mánudaginn má búast við vetrarlegu veðri víðast hvar um land, með snjókomu fyrir norðan, en frosti og snjólausu sunnan heiða. Mun frostið haldast út vikuna.

Nokkuð milt hefur verið sunnanlands undanfarið, en spáð er rigningu á morgun við höfuðborgina og snjókomu til fjalla. Á mánudagsmorgun mun hins vegar snúast í norðanátt með snjókomu Norðanlands og gæti færð jafnvel spillst eitthvað. Þá má sama kvöld búast við hvössu og hviðóttu veðri í Öræfum. Segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, að viðvaranir vegna veðurs á þeim slóðum kæmu ekki á óvart.

Hæð er nú yfir landinu, en lægð er að myndast við Hvarf sem mun svo ganga yfir landið. Þorsteinn segir að þegar hún verði komin yfir Langanes fari hún að draga kalt heimskautaloft yfir landið með þeim afleiðingum að kólni talsvert. Þá er gert ráð fyrir annarri lægð í vikunni á milli Íslands og Skotlands sem mun viðhalda kaldri norðanáttinni með tilheyrandi heimskautalofti út vikuna.

Þorsteinn segir að sunnanlands megi búast við að nokkuð björtu veðri í vikunni, meðan él verði norðanlands. Langtímaspáin geri hins vegar ráð fyrir að hæga vinda og bjartviðri í flestum landshlutum á föstudag og laugardag.

Það gæti orðið kalt en bjart veður sunnanlands í vikunni.
Það gæti orðið kalt en bjart veður sunnanlands í vikunni. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert