Launakröfur kennara FVA séu óraunhæfar

Ágústa segir viðræður um nýjan stofnanasamning hafa staðið yfir í …
Ágústa segir viðræður um nýjan stofnanasamning hafa staðið yfir í tvö ár með hléum og að enn hafi ekki náðst samkomulag. mbl.is/Sverrir

Skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi segir kjarakröfur kennara við skólann óraunhæfar og að um blygðunarlausa hagsmunabaráttu sé að ræða þar sem hennar persóna sé tekin fyrir.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ágústu Elínu Ingþórsdóttur, skólameistara FVA, vegna fréttaflutnings um málefni skólans.

Hún segir viðræður um nýjan stofnanasamning hafa staðið yfir í tvö ár með hléum og að enn hafi ekki náðst samkomulag. Ágreiningur felist í því að kennarar vilji leggja höfuðáherslu á starfsaldurstengdar hækkanir, en skólameistari samspil starfsaldurstengdra hækkana og frammistöðumats, auk áherslna á viðbótarmenntun, þróunarstarf og nýliða í kennslu.  

„Að kennarar beiti sér gegn skólameistara vegna þess að hann hafi ekki fallist á kröfur kennara um efni stofnanasamnings, án þess að þeir hafi sjálfir neytt úrræða sem þeim eru ákveðin í kjarasamningi, sýnir að hér er um blygðunarlausa hagsmunabaráttu að ræða þar sem ein persóna hefur verið tekin fyrir.“

Yfirlýsing Ágústu Elínar í heild sinni:

Vegna fréttaflutnings um málefni Fjölbrautaskóla Vesturlands Akranesi (FVA) undanfarna daga, og í ljósi þess að fram hefur komið hjá Félagi framhaldsskólakennara og Félagi stjórnenda í framhaldsskólum, tveimur aðildarfélögum KÍ, að nauðsynlegt sé að yfirvöld menntamála geri strax ráðstafanir til þess að kjör starfsfólks FVA verði leiðrétt og þeim tryggð sambærileg laun og tíðkast í öðrum framhaldsskólum; og hjá formanni kennarafélags skólans að helsta óánægja kennara sem leitt hafi til vantraustsyfirlýsingar á hendur skólameistara, sé óánægja með launakjör kennara, vill skólameistari koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Kjör kennara ráðast af kjarasamningi og stofnanasamningi, sem telst hluti kjarasamnings.  Það er hlutverk stjórnenda skóla annars vegar og kennara hins vegar að gera með sér stofnanasamning á grundvelli kjarasamnings. Eins og í öðrum samningum þarf tvo til að semja. Í ákvæðum kjarasamnings um stofnanasamninga eru ákvæði um að hvor aðili geti vísað ágreiningi til sáttanefndar, takist ekki samningur.

Viðræður um nýjan stofnanasamning hafa staðið í um 2 ár með hléum, og enn hefur ekki náðst samkomulag. Á síðasta ári vísuðu kennarar málinu til sáttanefndar en drógu málið sjálfir til baka, í þeim tilgangi að eiga frekari viðræður við skólameistara. Gott og vel.

Skólameistari hefur boðið ýmsar útfærslur að nýjum stofnanasamningi, sem hefðu í för með sér talsverðar launahækkanir, en þeim hefur öllum verið hafnað. Segja má að ágreiningur felist í því að kennarar vilja leggja höfuðáherslu á starfsaldurstengdar hækkanir, en skólameistari samspil starfsaldurstengdra hækkana og frammistöðumats, auk áherslna á viðbótarmenntun, þróunarstarf og nýliða í kennslu. Þar sem samkomulag hefur ekki náðst hefur skólameistari nú vísað málinu áfram til sáttanefndar, eftir að hafa ráðfært sig við fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Að kennarar beiti sér gegn skólameistara vegna þess að hann hafi ekki fallist á kröfur kennara um efni stofnanasamnings, án þess að þeir hafi sjálfir neytt úrræða sem þeim eru ákveðin í kjarasamningi, sýnir að hér er um blygðunarlausa hagsmunabaráttu að ræða þar sem ein persóna hefur verið tekin fyrir.

Nýjustu kröfur kennara við FVA eru allt að 15% hækkun grunnlauna, með mögulegri afturvirkni, auk 1.000.000 kr. eingreiðslu til allra kennara sem hafa starfað frá 1. ágúst 2015. Ágreiningur aðila snýr því að umfangi hækkana og hvernig þær koma til framkvæmda. 

Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort kjarabarátta fagstétta eigi að fara fram með þessum hætti, og hvort forstöðumenn ríkisstofnana eigi að láta undan svona óraunhæfum kjarakröfum, til að ávinna sér vinsældir innan vinnustaðar. Forstöðumönnum ríkisstofnana ber skylda til að fara vel með opinbert fé og þeir bera ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert