Tæplega 450 skjálftar á rúmum sólarhring

Skjálftarnir hafa flestir átt upptök sín um 28 km vestur …
Skjálftarnir hafa flestir átt upptök sín um 28 km vestur af Kópaskeri. Kort/Veðurstofa Íslands

Tæplega 450 jarðskjálftar hafa riðið yfir í og við Öxarfjörð á síðasta rúmlega sólarhring. Skjálftahrinan hófst um klukkan fimm síðdegis í gær og hefur jörð látlaust skolfið síðan. Tveir skjálftar hafa mælst 3,2 stig, sá fyrri reið yfir klukkan 11:03 og sá síðari klukkan 19:19.

Upptök flestra skjálftanna eru um það bil 28 kílómetra vestur af Kópaskeri.

Stærð flestra skjálftanna er á bilinu 1-2 stig. Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar hafa engar upplýsingar borist um að stærstu skjálftanna hafi orðið vart í byggð.

Jarðskjálftahrinan á upptök sín á Tjörnesbrotabeltinu en þar varð síðast öflug hrina í lok mars á þessu ári. Þá fundust stærstu skjálftarnir í nálægum byggðum. Í þeirri hrinu mældust um 2.600 skjálftar á um það bil viku, þar sem stærsti skjálftinn var 4,2 að stærð. Skjálftarnir í þeirri hrinu voru nær Kópaskeri, eða í um 6 km fjarlægð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert