Björgvin Páll opnar sig um andlegt hrun

Björgvin Páll Gústavsson í leik með Skjern.
Björgvin Páll Gústavsson í leik með Skjern. Ljósmynd/Skjern

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður danska úr­vals­deild­arliðsins Skjern í handbolta, skrifar um andleg veikindi sín á Facebook-síðu sína í morgun. 

Björgvin lýsir því að hann hafi setið klukkan tvö eftir miðnætti í janúar síðastliðnum á kirkjutröppunum fyrir framan dómkirkjuna í Köln eftir tapleik gegn Frökkum á heimsmeistaramótinu í handbolta.

„Það er nánast enginn á ferli fyrir utan mig, enda niðdimmt, mið nótt og hávetur. Ég ætti að vera sofandi á hóteli landsliðsins, í nágrenni við lestarstöðina í Köln. Í langan tíma hef ég reynt að láta einkenni um andlegt og líkamlegt hrun sem vind um eyru þjóta,“ skrifar Björgvin.

Hann segir að fyrir utan erfiðleikana sem fylgja þessum einkennum sé orðið allt of erfitt að reyna að halda haus og láta eins og ekkert sé innan um liðsfélagana. 

„Nú þegar mesti gráturinn er yfirstaðinn átta ég mig á því að ég er kominn með algjört ógeð á sjálfum mér, eða öllu heldur þessum brjálaða handboltamanni sem ég bjó til í þeim tilgangi að slökkva á líkamlegum og andlegum vandamálum sem ég hef glímt við í áraraðir. En hvernig komst ég hingað?“

 

mbl.is