Fann fyrir skjálftanum á Húsavík

Tilkynnt var um að skjálftinn, sem varð kl. 11:03 í …
Tilkynnt var um að skjálftinn, sem varð kl. 11:03 í gærmorgun, hefði fundist á Húsavík. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Skjálftahrina hefur staðið yfir í Öxarfirði síðan á laugardag og telja skjálftarnir á sjötta hundrað. Tveir hafa verið yfir 3 að stærð og barst Veðurstofu Íslands ein tilkynning frá Húsavík um að skjálfti sem varð kl. 11:03 í gær, 3,2, að stærð, hefði fundist í byggð.

Þetta segir Sigþrúður Ármannsdóttir hjá Veðurstofu Íslands. 

Síðari stóri skjálftinn var stærri, eða 3,4 að stærð, og reið yfir kl. 19:19. Engin tilkynning barst um að fólk hefði fundið fyrir honum, en upp­tök flestra skjálft­anna eru um það bil 28 kíló­metra vest­ur af Kópa­skeri.

Í morgun hefur verið lengra á milli skjálfta og virðist vera að draga úr virkni í bili. Sigþrúður segir þó að skjálftahrinur sem þessar séu óútreiknanlegar og því sé ekki útilokað að skjálftarnir taki sig upp aftur, eða lognist út af. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert