Huga að endurbótum á flugstöðinni í Vatnsmýri

Svona gæti flugstöðin litið út eftir endurbætur, samkvæmt hugmyndum Air …
Svona gæti flugstöðin litið út eftir endurbætur, samkvæmt hugmyndum Air Iceland Connect. Teikning/Air Iceland Connect

Air Iceland Connect hyggur á endurbætur á flugstöðinni í Reykjavík og hefur fengið framkvæmdaleyfi frá Reykjavíkurborg til þess að ráðast í þær, segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins. Tímasetningar eru þó enn óljósar.

„Við höfum fengið áformin samþykkt frá Reykjavíkurborg en við erum ekki komin með neinar tímasetningar eða annað slíkt, þetta er enn á vinnslustigi eins og sagt er,“ segir Árni í samtali við mbl.is.

Fjallað var um þessi áform í Morgunblaðinu á laugardaginn og þar haft eftir Þórmundi Jónatanssyni upplýsingafulltrúa samgönguráðuneytisins að Isavia, Mannvit og flugrekendur á Reykjavíkurflugvelli hefðu farið sameiginlega yfir tillögur um flugafgreiðslu í nýrri umferðarmiðstöð á BSÍ-reitnum, en ráðuneytið hefði ákveðið að endurskoða þá hugmynd í kjölfarið.

Teikning/Air Iceland Connect

Nú er stefnan að endurgera gömlu flugstöðina í Vatnsmýrinni, sem að stofni til var byggð á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Sá kostur þótti mun ódýrari og aðgengilegri í framkvæmd.

Árni segir að þær hugmyndir sem sjást hér á meðfylgjandi myndum séu þær sem flugfélagið telji vænlegastar þegar af framkvæmdunum í Vatnsmýri verður.

Teikning/Air Iceland Connect
mbl.is

Bloggað um fréttina