Lilja skipar nýja fjölmiðlanefnd til fjögurra ára

Ný fjölmiðlanefnd hefur verið skipuð til fjögurra ára.
Ný fjölmiðlanefnd hefur verið skipuð til fjögurra ára. Mynd/mbl.is

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur skipað fjölmiðlanefnd til næstu fjögurra ára. Skipunartímabil hennar er frá 1. september til 31. ágúst 2023 og er nefndin skipuð þremur lögfræðingum og einum prófessor í heimspeki.

Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður verður formaður nefndarinnar og var hann skipaður af ráðherra án tilnefningar. María Rún Bjarnadóttir mun sinna varaformennsku og var hún tilnefnd af Hæstarétti. Finnur Beck héraðsdómslögmaður var sömuleiðis skipaður af Hæstarétti. Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki og sviðsstjóri kennslusviðs Háskóla Íslands, verður einnig í nefndinni en hann var tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins.

Varamenn eru Hulda Árnadóttir hæstaréttarlögmaður, Marteinn Másson hæstaréttarlögmaður, Erla Skúladóttir héraðsdómslögmaður og Birgir Guðmundsson, dósent í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

Fyrirkomulagið harðlega gagnrýnt

Ekki eru allir hrifnir af fjölmiðlanefnd og hefur tilvera hennar sem og ákvarðanir verið gagnrýnt í gegnum tíðina. Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, skrifaði nýverið grein um sjálfstæði blaðamanna og aðför að frjálsum fjölmiðlum.

Varðandi tilraunir stjórnvalda til að hafa áhrif á tjáningarfrelsið vísaði hann meðal annars til stefnuskrár pólska stjórnmálaflokksins Lög og réttur sem sigraði kosningar þar í landi fyrir skemmstu. Í henni kemur fram að það eigi „að setja sérstakar reglur um blaðamenn og búa til „nýtt fjölmiðlaskipulag“ í landinu“.

Hjálmar Jónsson, formaður BÍ.
Hjálmar Jónsson, formaður BÍ. Mynd/mbl.is

„Nú vill svo óskemmtilega til að jafnvel hér á ísa köldu landi á hjara veraldar erum við að glíma við draug þessa kyns í gervi svokallaðrar fjölmiðlanefndar,“ skrifar Hjálmar og heldur áfram:

„Svo því sé til haga haldið að þá hefur nefndin ekki enn náð 10 ára aldri, en telur sig samt þess umkomna að segja blaðamönnum hvernig þeir eigi að vinna vinnuna sína með birtingu álitsgerða um efni fjölmiðla og vinnubrögð blaðamanna. Engir blaðamenn vinna þar þó og nánast engin reynsla af blaðamennsku er þar innan dyra.“

Nefndin tekið sér vald með „langsóttum lagatúlkunum

Hann segir fjölmiðlanefnd vissulega skipaða af velmeinandi og vel gerðum einstaklingum en aðalatriðið sé að þeir séu hluti af stjórnvaldi og hafi sem slíkir tekið sér það vald að úrskurða hvað sé gjaldgeng blaðamennska og hvað ekki.

„Sannarlega er það ekki með vilja löggjafans að embættismenn á vegum stjórnvalda hafi tekið sér þetta vald, að mínu mati, heldur er þessi framgangsmáti réttlættur með langsóttum lagatúlkunum,“ skrifar hann einnig í greininni sem má lesa í heild sinni á vefsíðu BÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert