„Ósmekklegt“ að kalla fjárfestingarleið SÍ „opinbera peningaþvættisleið“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ummæli ristjóra Kjarnans vera ósmekkleg.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ummæli ristjóra Kjarnans vera ósmekkleg. mbl.is/​Hari

„Það er ósmekklegt að segja að þetta hafi verið opinber peningaþvættisleið, eins og sérstaklega hafi verið hvatt til þess, en ég tek öllum ábendingum af alvöru ef að ekki hefur verið nægilega gætt að aðhaldi eða eftirliti, meðal annars um uppruna fjár.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is spurður um ummæli Þórðar Snæs Júlíussonar í Silfrinu á RÚV í gær. Þar sagði hann að fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands hefði verið ein skýrasta opinbera peningaþvættisleið sem nokkurn tímann hafi verið framkvæmd.

Sagði Þórður að sam­kvæmt út­tekt FATF, alþjóðlega starfs­hóps­ins um aðgerðir gegn pen­ingaþvætti og fjár­mögn­un hryðju­verka, frá ár­inu 2006 hafi fátt verið í lagi og að um mis­skiln­ing væri að ræða að pen­ingaþvætt­is­mál­in hefðu farið í ein­hverja pásu á meðan fjár­magns­höft­in voru í gildi.

Spurður hvort það hefði þurft að athuga betur með uppruna fjárs sem fór þegar í gegn segir Bjarni:

„Nú er mér er ekki kunnugt um að einhver slík mál hafi farið í rannsókn, það er ekki á minni könnu að skoða slík mál eða senda þau til rannsóknar, en ábendingum um að það kunni að hafa verið straumar inn í landið þar sem að menn hafa ekki gætt nægilega mikið af sér meðal annars um upprunann, þeim á að taka alvarlega.“

„En það er ósmekklegt að segja að þetta hafi verið opinber leið fyrir peningaþvætti af því að stjórnkerfið hefur og mun ávallt taka öllum ábendingum um brotalamir í þessu efni alvarlega og á að gera það,“ bætir Bjarni við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert