Tókust á um rekstrarvanda Landspítalans

mbl.is/Eggert

„Er þetta eðlilegt ástand? Er ástandið orðið þannig að það er orðið lífshættulegt að snúa sér í lífshættu á bráðamóttökuna? Hvað á að gera í því ástandi? Á sama tíma þenst ríkisbáknið út, eftirlitsstofnanir fá nóg af peningum, það hafa aldrei verið aðrar eins tekjur en á sama tíma er verið að skera Landspítalann — það er búið að skera hann inn að beini.“

Þetta sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, á Alþingi í dag þar sem hann beindi orðum sínum að Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. „Hvernig ætlar ráðherrann að taka á þessu ástandi og sjá til þess að fólk sem sækir spítalann heim sé öruggt? Við vitum að það er ekki öruggt í dag,“ spurði Guðmundur enn fremur.

Ráðherrann svaraði því til að fjórðungur ríkisútgjaldanna færu til heilbrigðismálanna og verulegur skerfur af því til Landspítalans. Fjárveiting til Landspítalans væri 65,8 milljarðar samkvæmt fjárlögum og á næsta ári yrði hún 69 milljarðar samkvæmt fjárlagafrumvarpi þess árs sem væri hækkun um 4,8% á milli ára.

„Rétt eins og aðrir forstjórar heilbrigðisstofnana og auðvitað forstjórar allra annarra ríkisstofnana þarf forstjóri Landspítala að glíma við það að halda stofnun sinni innan fjárlaga. Það er nokkuð sem við vitum og er veruleikinn hjá öllum sem um það fjalla,“ sagði Svandís. Rekstrarvandi Landspítalans væri sprottinn af mismundandi rótum. Ein þeirra væri launakostnaður.

„Mér finnst þetta vera eitthvað sem þarf að skoða og vil minna á að fjárstjórnarvaldið er hjá Alþingi,“ sagði ráðherrann.

mbl.is