Andlát: Þórður Eydal Magnússon

Þórður Eydal Magnússon
Þórður Eydal Magnússon

Dr. Þórður Eydal Magnússon lést á Vífilsstöðum 19. október síðastliðinn, 88 ára að aldri. Þórður fæddist 11. júlí 1931 í Vestmannaeyjum.

Foreldrar hans voru hjónin Magnús Ingibergur Þórðarson, verkamaður í Reykjavík, og Sigríður Sigmundsdóttir. Hann ólst upp í Reykjavík, lauk stúdentsprófi 1951 og tannlæknaprófi frá Háskóla Íslands 1956.

Framhaldsnám í tannréttingum stundaði Þórður við Tannlæknaskólann í Kaupmannahöfn 1956-58 og hjá dr. phil. Kaare Reitan í Ósló 1958-59. Þórður fékk sérfræðingsviðurkenningu árið 1965, fyrstur íslenskra tannlækna. Eftir námið starfaði hann við sérgrein sína óslitið til 1997. Þórður varð Dr. Odont. frá Háskóla Íslands 7. júlí 1979 fyrir ritgerð sína: „Maturation and Malocclusion in Iceland“ og var það fyrsta doktorsverkefnið sem bæði var unnið og varið við tannlæknadeild Háskóla Íslands. Hann skrifaði fjölda vísindagreina, endurnýjaði þekkingu sína stöðugt og sótti námskeið og ráðstefnur utanlands og innan.

Að loknu námi hóf Þórður kennslu við Háskóla Íslands og var prófessor í tannréttingum til 1998. Í starfi sínu lagði Þórður mikla áherslu á langtímarannsóknir og lyfti grettistaki við skipulagningu, söfnun og úrvinnslu umfangsmikilla gagna. Viðfangsefni hans var fyrst og fremst vöxtur og þroski andlits og tanna, langtímabreytingar og áhrif erfðaþátta. Eftir formleg starfslok hélt Þórður tengslum við tannlæknadeildina og var meðal annars leiðbeinandi tveggja doktorsnema sem byggðu verk sín á gagnasafni hans.

Þórður var tvívegis forseti Nordisk Orthodontisk Selskab. Hann var fyrsti formaður Tannréttingafélags Íslands og einnig formaður Félags sérmenntaðra tannlækna, en bæði félögin voru stofnuð að frumkvæði hans. Þá var Þórður deildarforseti tannlæknadeildar Háskóla Íslands um árabil, fulltrúi í háskólaráði og fyrsti heiðursfélagi Tannréttingafélags Íslands.

Eiginkona Þórðar, Kristín Sigríður Guðbergsdóttir, fædd 1932, lifir mann sinn ásamt sonunum Magnúsi og Birni, en sá þriðji, Ari, lést 2007.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »