Aukinn vindur og meiri snjókoma næstu daga

Snjónum var vel tekið af þessum hressu krökkum á Akureyri …
Snjónum var vel tekið af þessum hressu krökkum á Akureyri í dag. mbl.is/Margrét Þóra

„Það verður norðanstrekkingur og éljagangur á norðanverðu landinu en bjart á sunnanverðu landinu á morgun. Það verður mjög kalt í veðri miðað við árstíma, tveggja til sjö stiga frost,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Það hefur snjóað duglega á Akureyri og víðar á norðurlandi í dag og snjókomunni mun ekki linna fyrr en um helgina. Þrátt fyrir úrkomuleysi á sunnanverðu landinu hefur verið kalt í veðri og verður áfram næstu daga.

Frá Akureyri í dag.
Frá Akureyri í dag. mbl.is/Margrét Þóra

Snjóþungt á vegum og takmarkað skyggni

„Á fimmtudaginn þá herðir meira á vindinum og hann verður 13 til 20 metrar á sekúndu og bætir líka í snjókomuna á norðanverðu og austanverðu landinu,“ bætir Teitur við og tekur fram að akstursskilyrði verði slæm:

„Það verða erfið akstursskilyrði á vegunum, snjóþungt og mjög blint í snjókomunni og hvassviðrinu. En sunnanmegin á landinu verður áfram úrkomulaust en vindurinn hins vegar jafn sterkur og fyrir norðan.“

Það mun ekki lægja fyrr en síðdegis á föstudag en þá mun sömuleiðis kólna meira á öllu landinu eins og gerist í norðanáttinni.

Frá Akureyri í dag.
Frá Akureyri í dag. mbl.is/Margrét Þóra
Frá Akureyri í dag.
Frá Akureyri í dag. mbl.is/Margrét Þóra
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert