Betur búin til að takast á við úttektir FATF

Bjarni Ben og Áslaug Arna sátu fyrir svörum vegna gráa ...
Bjarni Ben og Áslaug Arna sátu fyrir svörum vegna gráa listans á fundi efnahags- og viðskiptanefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dómsmálaráðherra segir Ísland vel í stakk búið til þess að bregðast við næstu úttekt FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, þar sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sat fyrir svörum ásamt Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, viðruðu nokkrir nefndarmenn áhyggjur sínar af því að það hafi tekið íslensk stjórnvöld tíu ár að bregðast við úttekt FATF frá árinu 2006 og að samt sem áður hafi fjölmörg atriði enn verið í ólagi samkvæmt úttekt 2018, aðeins tveimur árum síðar.

Í máli sínu á fundinum benti Áslaug Arna á að fjármagnshöft hefðu verið hér í gildi stóran hluta tímans og að FATF hafi sýnt því skilning að af þeim ástæðum tæki það Ísland lengri tíma að bregðast við ábendingum.

Í samtali við fjölmiðla eftir fundinn, aðspurð hvort ekki væri ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að svipuð staða kæmi upp vegna næstu úttektar, þ.e. að grípa þyrfti til enn frekari aðgerða, sagði Áslaug Ísland nú betur í stakk búið til þess að takast á við slíkt.

„Frá 2018 hefur verið að störfum öflugur stýrihópur sem hefur það hlutverk að hafa eftirfylgni með þessum málum og fylgja þessum tillögum eftir svo nú erum við mun betur í stakk búin til þess að takast á við þær ábendingar sem koma frá FATF en áður.“

mbl.is