Fangelsi fyrir þjófnað á fimm veskjum

mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag karlmann í sex mánaða fangelsi, þar af þrjá skilorðsbundna, fyrir fimm þjófnaðarbrot. Brotin framdi maðurinn í félagi við tvo aðra menn á tveimur sólarhringum á höfuðborgarsvæðinu.

Mennirnir þrír eru allir rúmenskir ríkisborgarar og voru þeir upphaflega allir ákærðir vegna málsins en ákæra á hendur hinum tveimur mönnunum var afturkölluð.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa stolið samtals tæplega 1,2 milljónum króna í samstarfi við hina tvo mennina með því að stela veskjum í verslunum á höfuðborgarsvæðinu og taka út af kortum sem í þeim voru í hraðbönkum auk þess sem reiðufé var um að ræða í einhverjum tilfellum.

Fram kemur í dómnum að fórnarlömb mannanna hafi auk eins fyrirtækis verið fimm konur á sjötugs-, áttræðis- og níræðisaldri.

Maðurinn játaði sök fyrir dómi.

mbl.is