Forsætisráðherra til í að funda með Klúbbmönnum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er reiðubúin til þess að hitta Klúbbmenn …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er reiðubúin til þess að hitta Klúbbmenn eða aðstandendur þeirra sé þess óskað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ekki hitt svokallaða Klúbbmenn, í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, persónulega en er reiðubúin til að eiga slíkan fund sé þess óskað. Þetta kemur fram í svari Katrínar við fyrirspurn Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, á Alþingi.

Fyrirspurn Sigmundar sneri að þeim Einari Bollasyni, Magnúsi Leopoldssyni, Valdimar Olsen og Sigurbirni Eiríkssyni sem tengdust skemmtistaðnum Klúbbnum þegar rannsókn á hvarfi Geirfinns Einarssonar fór fram og hafa verið kallaðir Klúbbmenn. Þeir voru handteknir í janúar 1976 og sátu í gæsluvarðhaldi í 105 daga grunaðir um að tengjast hvarfi Geirfinns.

Sigmundur spurði forsætisráðherra hvort að hún telji að Klúbbmenn, eða eftir atvikum erfingjar þeirra, verðskuldi frekari skaðabætur vegna varðhaldsins og afleiðinga meðferðarinnar en þeir hafa þegar fengið.

Hann spurði einnig hvort að Katrín teldi tilefni til umræddir aðilar fengju formlega afsökunarbeiðni frá ríkinu. Þá spurði hann hvort að forsætisráðherra hefði hitt Klúbbmenn eða fulltrúa þeirra.

Búið að dæma þeim bætur og afsökunarbeiðni hafi náð til þeirra

Í svari forsætisráðherra kom fram að fjórmenningarnir hefðu verið dæmdar bætur fyrir að hafa setið í gæsluvarðhaldi að ósekju og að endanlegir dómar liggi fyrir í þeim málum.

Einnig kom fram í svarinu að afsökunarbeiðni forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, 28. september 2018 hefði ekki einungis náð til þeirra sem voru sýknaðir þann dag með dómi Hæstaréttar heldur til allra sem hafa átt sárt um að binda vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins.

Þá sagðist ráðherra ekki hafa hitt Klúbbmenn eða fulltrúa þeirra en væri „að sjálfsögðu“ reiðubúinn til að eiga slíkan fund væri þess óskað.

Fyrirspurn Sigmundar Davíðs og svör Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra:

1. Í ljósi þess að ráðherra hefur fært svokölluð Guðmundar- og Geirfinnsmál inn á borð ríkisstjórnarinnar og haft persónulega aðkomu að þeim, telur ráðherra rétt að metið verði hvort þeir fjórir einstaklingar sem sannarlega sátu saklausir í einangrunarvist mánuðum saman á fyrri hluta árs 1976, eða eftir atvikum erfingjar þeirra, verðskuldi frekari skaðabætur vegna varðhaldsins og annarra áhrifa meðferðarinnar sem þeir sættu vegna málsins. 

Í dómum Hæstaréttar Íslands 3. mars 1983 í málum nr. 124–127/1980 voru fjórum mönnum dæmdar bætur fyrir að hafa setið í gæsluvarðhaldi í að meðaltali þrjá mánuði að ósekju. Þannig liggja fyrir endanlegir dómar í þeirra málum sem miðuðu eðli máls samkvæmt að því að bæta þeim að fullu það tjón sem þeir urðu fyrir.

2. Telur ráðherra tilefni til að umræddir aðilar fái formlega afsökunarbeiðni af hálfu ríkisvaldsins?

Afsökunarbeiðni forsætisráðherra, f.h. ríkisstjórnarinnar, 28. september 2018, náði ekki aðeins til þeirra sem sýknaðir voru með dómi Hæstaréttar 27. sama mánaðar í máli nr. 521/2017 og aðstandenda þeirra, heldur einnig annarra sem hafa átt um sárt að binda vegna málsins.

3. Hefur ráðherra hitt umrædda aðila eða fulltrúa þeirra og ef ekki, væri hann þá reiðubúinn til að hitta þá æski þeir þess?

Ráðherra hefur ekki hitt umrædda aðila eða fulltrúa þeirra vegna þess máls sem fyrirspurnin varðar. Ráðherra er á hinn bóginn að sjálfsögðu reiðubúinn til að eiga slíkan fund með aðilum ef eftir honum er óskað.

mbl.is