„Fremst í heiminum í því að vera grá“

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingingarinnar.
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir að bregðast seint og illa við þeim ábendingum sem FATF, alþjóðlegur starfshópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, til að koma í veg fyrir að Ísland lenti á svokölluðu gráum lista, líkt og gerðist fyrir helgi. 

„Íslendingar vilja gjarnan vera í fremstu röð og í hópi þeirra þjóða sem skara fram úr á öllum sviðum og eru fyrirmynd öðrum þjóðum. Nú er komið í ljós að við erum fremst í heiminum í því að vera grá,“ sagði Guðmundur Andri á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins. 

Guðmundur Andri gagnrýndi orðræðu ríkisstjórnarinnar í aðdraganda þess að Ísland lenti á gráa listanum. Sagði hann meðal annars að halda mætti að talsmenn ríkisstjórnar telji að Ísland hafi verið sett á listann þar sem útlendingar skilji ekki sérstöðu Íslands. „Þeir skilja ekki hversu lítinn mannafla Íslendingar þurfa til að fylgjast með peningaþvætti sem sé hvort sem er eiginlega ekki neitt sem orð sé á gerandi,“ sagði Guðmundur Andri. 

Á opn­um fundi efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar Alþing­is í morgun þar sem dóms­málaráðherra og fjár­mála- og efna­hags­ráðherra sátu fyrir svörum viðruðu nokkr­ir nefnd­ar­menn áhyggj­ur sín­ar af því að það hafi tekið ís­lensk stjórn­völd tíu ár að bregðast við út­tekt FATF frá ár­inu 2006 og að samt sem áður hafi fjöl­mörg atriði enn verið í ólagi sam­kvæmt út­tekt 2018, aðeins tveim­ur árum síðar.

„Það má líka vel vera að tildrög þess að við erum þarna megi rekja til fyrri ára og eldri ríkisstjórna en það breytir ekki því að núverandi ríkisstjórn fékk varnaðarorð frá stofnuninni með ábendingum um úrbætur og núverandi ríkisstjórn brást seint og illa við þeim ábendingum, sennilega af hugmyndafræðilegum orsökum,“ sagði Guðmundur Andri og bætti við að þær mætti rekja til Sjálfstæðisflokksins, sem stýrir fjármálum og dómsmálum þjóðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert