Jákvæð í garð hugmynda Herdísar

Sveinn Guðmundsson er stjórnarformaður SÍBS.
Sveinn Guðmundsson er stjórnarformaður SÍBS. mbl.is/Hari

Stjórn SÍBS er jákvæð í garð hugmynda setts forstjóra Reykjalundar um sterkari aðskilnað starfsemi Reykjalundar frá SÍBS og aðildarfélögum þess. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórninni.

Herdís Gunnarsdóttir, settur forstjóri Reykjalundar, ritaði pistil til starfsmanna sem birtist opinberlega á vef Reykjalundar í dag og sagði hún þar nauðsynlegt að endurskoða aðkomu stjórnar SÍBS að starfsemi Reykjalundar. Hún sagðist taka undir þau sjónarmið að félagasamtök ættu ekki að hafa beina aðkomu að daglegri stjórn heilbrigðisstofnana.

„SÍBS hefur það ekki að markmiði sínu að hlutast til um daglegan rekstur á Reykjalundi og vill það eitt að starfsemin þar fái að blómstra áfram. Stjórn SÍBS treystir því starfsfólki sem er á Reykjalundi og stjórnendum hans til að reka fyrsta flokks endurhæfingarstofnun sem þjónar skjólstæðingum sínum vel,“ segir í yfirlýsingu stjórnar SÍBS.

Þar segir einnig að stjórn SÍBS hafi ekki haft „aðkomu að stefnumótuninni á Reykjalundi sem deilurnar urðu um. Eina hlutverk stjórnarinnar var að staðfesta nýtt skipurit sem staðfest hafði verið af framkvæmdastjórn Reykjalundar en sem í ljós kom að ekki reyndist sátt um á vinnustaðnum. Kom það stjórn SÍBS í opna skjöldu. Framhaldið þekkja allir.“

Stjórnin segist vilja gefa nýjum stjórnendum á Reykjalundi svigrúm til að takast á við verkefnin sem bíða, skapa þar starfsfrið og eiga samtal við hið opinbera um þá þjónustu sem veitt er á staðnum.

Yfirlýsing stjórnar SÍBS í heild sinni:

Stjórn SÍBS vill lýsa yfir jákvæðni sinni gagnvart hugmyndum setts forstjóra Reykjalundar, Herdísar Gunnarsdóttur, um sterkari aðskilnað starfsemi Reykjalundar frá SÍBS og aðildarfélögum þess, en þar á meðal eru samtök sjúklinga sem höfðu veg og vanda af því að koma endurhæfingarstöðinni á Reykjalundi á fót.

SÍBS hefur það ekki að markmiði sínu að hlutast til um daglegan rekstur á Reykjalundi og vill það eitt að starfsemin þar fái að blómsta áfram. Stjórn SÍBS treystir því starfsfólki sem er á Reykjalundi og stjórnendum hans til að reka fyrsta flokks endurhæfingarstofnun sem þjónar skjólstæðingum sínum vel.

Til merkis um þá afstöðu þá hafði stjórn SÍBS, ólíkt því sem fram hefur komið, ekki aðkomu að stefnumótuninni á Reykjalundi sem deilurnar urðu um. Eina hlutverk stjórnarinnar var að staðfesta nýtt skipurit sem staðfest hafði verið af framkvæmdastjórn Reykjalundar en sem í ljós kom að ekki reyndist sátt um á vinnustaðnum. Kom það stjórn SÍBS í opna skjöldu. Framhaldið þekkja allir.

Nú eru nýir stjórnendur komnir að Reykjalundi og það er í þeirra höndum að tryggja að faglegt starf á staðnum sé í föstum skorðum. Stjórn SÍBS vill gefa þeim svigrúm til að takast á [við] verkefnin sem bíða, að skapa starfsfrið á vinnustaðnum og eiga samtal við hið opinbera um þá þjónustu sem þar er veitt.

SÍBS lítur svo á að stjórnendur Reykjalundar hafi verið sjálfstæðir í störfum sínum á síðustu árum en vel má vera að ganga þurfi enn lengra til að greina rekstur endurhæfingarstarfseminnar frá annarri starfsemi SÍBS. Stjórn SÍBS mun ganga til þeirra viðræðna með bjartsýni og opnum huga.

mbl.is