Nauðsynlegt að endurskoða aðkomu stjórnar SÍBS

Fjórir læknar hafa sagt upp störfum í kjölfar þeirrar ólgu …
Fjórir læknar hafa sagt upp störfum í kjölfar þeirrar ólgu sem kom upp innan stofnunarinnar fyrr í þessum mánuði. Herdís segir að viðeigandi ráðstafanir verði gerðar til að bregðast við því. mbl.is/Eggert

Herdís Gunnarsdóttir, settur forstjóri Reykjalundar, segir að hún telji nauðsynlegt að endurskoða aðkomu stjórnar SÍBS að starfsemi stofnunarinnar og að hún sé þeirrar skoðunar að félagasamtök eigi ekki að hafa beina aðkomu að daglegri stjórn heilbrigðisstofnana. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í pistli hennar til starfsmanna, sem birtur var á vef Reykjalundar í dag.

Herdís segist þar hafa sett fram tvær kröfur um leið og hún tók tímabundið við starfi forstjóra, að áheyrnarfulltrúi SÍBS myndi þá þegar víkja úr framkvæmdastjórn Reykjalunda og að starf forstjóra yrði auglýst eins fljótt og hægt væri og hæfir aðilar yrðu fengnir til þess að annast umsóknarferlið. Á báðar kröfur hennar var fallist.

Herdís Gunnarsdóttir er settur forstjóri Reykjalundar.
Herdís Gunnarsdóttir er settur forstjóri Reykjalundar. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir að sú ákvörðun að taka við starfinu er það bauðst hafi ekki verið „auðveld eða léttvæg“, en einnig kemur fram í pistli Herdísar að enn ríki reiði innanhúss á Reykjalundi, sem sé á ábyrgð allra að vinna úr. „Ég tel hins vegar að ég geti lagt mitt af mörkum og langar að eiga þátt í því með ykkar hjálp að byggja hér hratt upp að nýju,“ skrifar forstjórinn.

Fram kemur í pistlinum að drög að nýjum samningi við Sjúkratryggingar Íslands séu langt komin og í drögum að samningi sé gert ráð fyrir að samið verði um 29.000 meðferðardaga á ári í stað 26.000 meðferðardaga eins og nú er, eða um 11,5% aukningu meðferðardaga.

Brugðist verði við uppsögnum

Fjórir læknar hafa sagt upp störfum í kjölfar þeirrar ólgu sem kom upp innan stofnunarinnar fyrr í þessum mánuði. Herdís segir að viðeigandi ráðstafanir verði gerðar til að bregðast við því.

„Eðlilega höfum við öll áhyggjur af uppsögnum. Fólk spyr hvað verði um teymisvinnuna, innlagnir sjúklinga og aðra þætti þjónustunnar. Framkvæmdastjórn mun leitast við að tryggja nægjanlega mönnun með öllum tiltækum ráðum og tryggja að þjónusta við sjúklinga verði samfelld og óskert,“ skrifar Herdís.

Vill ræða aðkomu stjórnar SÍBS að starfseminni

Herdís segir að ræða þurfi aðkomu félagasamtaka að starfsemi Reykjalundar. Hún segir einnig að atburðir síðustu vikna hafi haft áhrif á alla starfsmenn og hún sé þar ekki undanskilin.

„Ég tek undir þau sjónarmið að félagasamtök eigi ekki að hafa beina aðkomu að daglegri stjórn heilbrigðisstofnana. Til að fyrirbyggja að atburðir síðustu vikna geti endurtekið sig tel ég nauðsynlegt að endurskoða aðkomu stjórnar SÍBS að starfsemi Reykjalundar. SÍBS er vissulega eigandi Reykjalundar en það útilokar ekki að taka til skoðunar núverandi fyrirkomulag með hagsmuni sjúklinga, faglegrar starfsemi og starfsmanna að leiðarljósi. Ég hef óskað eftir samtali við stjórn SÍBS um þessi mál og tel afar áríðandi að tillögur að breyttu fyrirkomulagi verði leiddar til lykta á næstu 3-6 mánuðum,“ segir forstjórinn.

mbl.is