Óstöðugt ástand kemur ekki í veg fyrir starfsemi Rauða krossins

Í Al Hol flóttamannabúðunum í norðausturhluta Sýrlands hafast tæplega 70.000 …
Í Al Hol flóttamannabúðunum í norðausturhluta Sýrlands hafast tæplega 70.000 manns við, tveir þriðju af þeim eru börn. AFP

Talið er að um 11,7 milljónir einstaklinga þurfi á hjálpar- og mannúðaraðstoð að halda í norðausturhluta Sýrlands eftir að harðandi átök á svæðinu undanfarnar vikur. Dæmi eru um að alþjóðleg­ar hjálp­ar­stofn­an­ir hafa neyðst til að hætta starf­semi í Sýrlandi eftir að Tyrk­ir réðust gegn Kúr­d­um sem haf­ast við á svæðinu. Rauði krossinn hefur hins vegar haldið starfsemi sinni áfram þrátt fyrir óstöðugt ástand. 

Einn af hverjum tveimur hefur þurft að yfirgefa heimili sitt og annaðhvort flúið innan Sýrlands eða til annarra landa í leit að öryggi. Innviðir landsins eru viðkvæmir eða ekki til staðar eftir svo mörg ár af átökum.

Alls hafa fimm sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi starfað á vettvangssjúkrahúsinu í borginni Hassakeh í norðaustur Sýrlandi síðastliðna mánuði, að því er segir í tilkynningu samtakanna á Íslandi. Þeir sinna heilbrigðisaðstoð við flóttafólk, komið að rekstri þess, uppsetningu og skipulagi. Í Al Hol flóttamannabúðunum hafast tæplega 70.000 manns við, tveir þriðju af þeim eru börn.

Vatnsskortur er mikið áhyggjuefni, sérstaklega í fyrrnefndri Hassakeh borg, þangað sem flóttafólk frá borgum og bæjum nálægt landamærunum að Tyrklandi streymir. Alþjóðaráð Rauða krossins og sýrlenski Rauði hálfmáninn kappkosta að tryggja öllum aðgang að hreinu vatni, en megin vatnsveita fyrir svæðið eyðilagðist í átökunum. Talið er að um 300.000 manns sem búa í nágrenni Hassakeh og Raqqa hafi lagt á flótta eða muni gera það á næstu dögum vegna átakanna. Þessi fjöldi samsvarar því að nærri öll íslenska þjóðin væri á flótta.

Íslenskir sendifulltrúar segja frá störfum sínum á vettvangi

Rauði krossinn á Íslandi mun á fimmtudaginn standa fyrir viðburði í aðalstöðvum Rauða krossins í Efstaleiti milli klukkan 8:30 og 9:30 þar sem sendifulltrúarnir Hólmfríður Garðarsdóttir og Jón Eggert Víðisson segja frá störfum sínum í Sýrlandi.

Fólki gefst einnig kostur á að styðja við lífsbjargandi starf Rauða krossins í Sýrlandi með því að senda sms-ið HJALP í númerið 1900 og 2900 krónur verða dregnar af símreikningi.

Einnig er hægt að leggja inn á reikning 0342 – 26 – 12, kt. 530269-2649 eða nota Kass. Sem dæmi má nefna að fyrir 2900 kr. er hægt að útvega þremur börnum mat í mánuð og fyrir 5000 kr. er hægt að útvega fimm börnum mat í mánuð og einu barni lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu og lyf.

mbl.is