Skýr tengsl milli svefnleysis og orkudrykkjaneyslu

17% þeirra barna sem drekka einn eða fleiri orkudrykki daglega …
17% þeirra barna sem drekka einn eða fleiri orkudrykki daglega segja andlega heilsu sína slæma eða mjög slæma. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er flókið að átta sig á því hvort sé orsök og hvort sé afleiðing. Hvort börnin drekki orkudrykki vegna þess að þau sofi lítið eða hvort þau sofi lítið vegna þess að þau drekki orkudrykki,“ sagði Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu, á málþingi um ungt fólk og orku­drykki sem fram fór í dag.

Margrét kynnti þar rannsókn sem meðal annars sýnir skýrt samband á milli orkudrykkjaneyslu barna og ungmenna og svefnleysis þeirra. Einnig leiðir rannsóknin í ljós samband milli slæmrar andlegrar heilsu og neyslu orkudrykkja. Rannsóknin er frá því í febrúar í fyrra.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir kennir við Háskólann í Reykjavík en hún …
Margrét Lilja Guðmundsdóttir kennir við Háskólann í Reykjavík en hún er jafnframt sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu.

Samkvæmt embætti landlæknis eiga börn að sofa lengur en sjö tíma á hverri nóttu, minni svefntími en það fellur undir svefnskort. Margrét tók fram að mælt væri með því að börn svæfu í níu til ellefu klukkustundir á hverri nóttu. 

Hlutfall barna á unglingastigi grunnskóla sem drekka einn eða fleiri …
Hlutfall barna á unglingastigi grunnskóla sem drekka einn eða fleiri orkudrykki vex augljóslega í takt við aldur barnanna. Skjáskot/Rannsóknir og greining

Samkvæmt rannsókninni sem Margrét kynnti sofa 31% barna í áttunda bekk í sjö tíma eða minna á hverri nóttu, 42% í níunda bekk og 54% í tíunda bekk. Þau sem ekki sofa nóg eru líklegri til að drekka orkudrykki. 

Skjáskot/Rannsóknir og greining

Geðheilsa grunnskólabarna sem drekka orkudrykki er mun verri en þeirra sem ekki drekka orkudrykki. 17% þeirra barna sem drekka einn eða fleiri orkudrykki daglega segja andlega heilsu sína slæma eða mjög slæma. 9% þeirra barna sem ekki drekka einn eða fleiri orkudrykki daglega segja andlega heilsu sína slæma eða mjög slæma. 

Skjáskot/Rannsóknir og greining

Börn sem nota samfélagsmiðla mikið drekka almennt meira af orkudrykkjum. 

Skjáskot/Rannsóknir og greining

Hvað menntaskólanema varðar þá drekkur meira en helmingur þeirra einn eða fleiri orkudrykki daglega. Hefur sú tala vaxið úr 20% árið 2013 í 55% árið 2018. 

Margrét benti á að það væri vel hægt að ráðast á orkudrykkjavandann. Hér áður fyrr hefði notkun íslenskra ungmenna á áfengi og fíkniefnum verið á meðal þeirri mestu í heiminum en nú væri hún sú minnsta. 

Til þess að breyta neysluvenjum íslenskra barna segir Margrét mikilvægt að foreldrar skoðuðu sínar neysluvenjur. 

„Það er mjög mikilvægt að við horfum í eigin barm og skoðum okkar hegðun og svefnvenjur.“

mbl.is