Zúistar vilja milljónir frá ríkinu

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Deilt er um dráttarvexti upp á í kringum sex milljónir króna í dómsmáli trúfélagsins Zúista gegn ríkinu en aðalmeðferð málsins fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Málið snýst einkum um dráttarvexti vegna þess tíma sem ríkið hélt eftir sóknargjöldum á meðan deilur voru uppi innan Zúista um það hverjir væru réttmætir stjórnendur trúfélagsins. Umrætt tímabil stóð yfir frá því í janúar 2016 þar til í september 2017. Félagið fékk að lokum greiddar 53 milljónir króna í október 2017.

Þá snýst málið einnig um meinta saknæma háttsemi sýslumannsins á Norðurlandi eystra vegna málsins en embættið heldur utan um skráningu trúfélaga.

Eiríkur Áki Eggertsson, lögmaður ríkisins í málinu, segir í samtali við mbl.is að ríkið hafni kröfu Zúista um greiðslu dráttarvaxta. Einnig sé því hafnað að sýslumaðurinn hafi á einhvern hátt sýnt af sér saknæma háttsemi.

Ekki náðist í lögmann Zúista, Gunnar Egil Egilsson.

Trúfélagið vakti á sínum tíma talsverða athygli eftir yfirlýsingar um að það ætlaði að endurgreiða sóknargjöld til sóknarbarna sinna og fjölgaði í kjölfarið mjög í félaginu. Deilur komu síðan upp um fyrirkomulag endurgreiðslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert