„Ég vil að við endurskoðum þessa hluti“

Sveinn Guðmundsson, stjórnarformaður SÍBS.
Sveinn Guðmundsson, stjórnarformaður SÍBS. Mbl.is/Hari

„Við erum sammála henni. Ég vil að við endurskoðum þessa hluti. Við höfum verið að ræða að breyta þessu formi frá því í mars á þessu ári,“ segir Sveinn Guðmundsson formaður stjórnar SÍBS, við mbl.is, um sterk­ari aðskilnað starf­semi Reykjalund­ar frá SÍBS og aðild­ar­fé­lög­um þess

Í pistli sem Herdís Gunnarsdóttir, settur forstjóri Reykjalundar, sendi frá sér í gær kemur fram að hún hafi gert þá kröfu að breyting verði gerð á núverandi fyrirkomulagi ef hún ætti að taka að sér tímabundið starf forstjóra. Hún sagði meðal annars að „fé­laga­sam­tök eigi ekki að hafa beina aðkomu að dag­legri stjórn heil­brigðis­stofn­ana. Til að fyr­ir­byggja að at­b­urðir síðustu vikna geti end­ur­tekið sig tel ég nauðsyn­legt að end­ur­skoða aðkomu stjórn­ar SÍBS að starf­semi Reykjalund­ar.” 

Stjórn SÍBS sendi frá sér yfirlýsingu skömmu seinna þar sem tekið er undir þessar kröfur.

SÍBS á og rekur Reykjalund. Stjórn og daglegur rekstur Reykjalundar er í höndum framkvæmdastjórnar Reykjalundar sem jafnframt stýrir faglegu starfi og stefnumótun, að sögn Sveins. Hann þvertekur fyrir að stjórn SÍBS hlutist til um daglegan rekstur Reykjalundar. „Við höfum aldrei andað ofan í hálsmálið á framkvæmdastjórn Reykjalundar í 75 ár og höfum engan áhuga á því,“ segir Sveinn. Að frátöldum tveimur uppsögnum nýverið þegar stjórnin hlutaðist til um starfslok tveggja einstaklinga, fyrrverandi forstjóra Reykjalundar og framkvæmdastjóra lækninga í október. „Mér finnst leiðinlegt að þetta skildi hafa komið upp,“ útskýrir Sveinn um atburði mánaðarins.

Tveir menn í stjórn SÍBS lögðust gegn því að Birgi Gunnarssyni, fyrrverandi forstjóri Reykjalundar, yrði sagt upp störfum um síðustu mánaðamót. Þetta kemur fram í bókun sem þeir lögðu fram á stjórnarfundi. Fyrst var greint frá í kvöldfréttum stöðvar tvö í gær.  Þetta eru Pétur J. Jónasson og Frímann Sigurnýasson. Hvorugur þeirra vildi tjá sig frekar við mbl.is þegar eftir því var leitað. Stjórnin samþykkti uppsögnina eins og fram hefur komið. Auk Péturs og Frímanns eru stjórnarmenn þau Valur Stefánsson, Selma Árnadóttir og Kristín Eiríksdóttir og varaformaður er Sólveig Hildur Björnsdóttir.

Stjórn SÍBS samþykkti nýtt skipurit á Reykjalundi 20. ágúst síðastliðinn á stjórnarfundi og það bar með sér að ráðið yrði í nýja stöðu, framkvæmdastjóra endurhæfingar. Hins vegar var staðan auglýst 29. júní og var Herdís Gunnarsdóttir ráðin í það starf og tók við um mánaðamótin september og október. Sveinn segir að eina aðkoma stjórnar SÍBS að nýja skipuritinu hafi verið að samþykkja það í þeirri trú að almenn sátt hafi ríkt um það. En seinna kom í ljós að svo var ekki, að sögn Sveins.     

Framganga stjórnar SÍBS hefur verið harðlega gagnrýnd og spurningamerki sett við að félagasamtök hafi vald til að grípa inn í starfsemi Reykjalundar með fyrrgreindum afleiðingum. Sveinn telur nú tímabært að bregðast við þeim kröfum að endurskoða fyrirkomulag og hlutverk stjórnar SÍBS einkum í ljósi þess að stjórnin hafi þegar rætt það fyrr á þessu ári. Tímapunkturinn sé réttur núna að ganga í það mál. 

Fyrr í mánuðinum sagði heilbrigðisráðherra það vera áfall hvað varðar fag­mennsk­una á staðnum en ekki síður fyr­ir sjúk­linga og al­menn­ing í land­inu að þessi m hluti heil­brigðisþjón­ust­unn­ar byggi ekki á traust­ari grunni en hafi komið fram. Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands hefur meðal annars óskað eftir gögnum um málið. 

„Það er algjörlega eðlilegt og sjálfsagt. Það á allt að vera upp á borðum. Ég vil að farið sé vel með almannafé,“ segir Sveinn um gögnin sem Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) hafa óskað eftir. SÍ kaupir þjónustu af Reykjalundi og fyrirhugað er að á þessu ári kaupi SÍ um 29.000 meðferðardaga á ári í stað 26.000 meðferðardaga eins og nú er, eða um 11,5% aukn­ingu meðferðardaga.

Spurður hvaða breytingar verði gerðar á stjórnarháttum SÍBS til að gyrða fyrir að sambærileg mál komi aftur upp þ.e.a.s. að stjórn SÍBS gangi fram með sambærilegum hætti segist Sveinn ekki getað tjáð sig um það. Næst á dagskrá er að fara yfir stöðuna og hvernig best verður að hátta því í samvinnu við framkvæmdastjórn Reykjalundar. 

SÍBS, Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, sem var stofnað árið 1938 á og rekur Reykjalund. Árið 1945 var tekið á móti vistmönnum og rekstur stofnunarinnar hófst. Um þetta leyti tók í gildi opinber reglugerð um Reykjalund sem kvað meðal annars á um að fulltrúi skipaður af ríkinu átti sæti í stjórn Reykjalundar. Fram til ársins 2008 skipaði heilbrigðisráðherra fulltrúa í stjórn Reykjalundar en sama ár felldi þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, reglugerðina úr gildi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert