Fimm læknar á Reykjalundi hafa sagt upp

Fimm læknar hafa nú sagt upp störfum á Reykjalundi.
Fimm læknar hafa nú sagt upp störfum á Reykjalundi. mbl.is/Eggert

Einn læknir til viðbótar sagði starfi sínu á Reykjalundi lausu í dag, en áður höfðu fjórir sagt upp störfum. Frá þessu var greint í tíufréttum Ríkisútvarpsins og þar kom fram að uppsögnin hefði verið vegna óánægju með störf stjórnar SÍBS.

Mikil ólga hefur verið á Reykjalundi að undanförnu. Í frétt RÚV var haft eftir Ólafi Þór Ævarssyni, nýráðnum framkvæmdastjóra lækninga, að hægt verði að halda starfseminni á Reykjalundi gangandi þar sem þrír læknanna ætli að starfa út uppsagnarfrest sinn. Einnig er haft eftir honum að snúið sé að ráða nýja lækna, þar sem á Reykjalundi sé mjög sérhæfð starfsemi.

Guðbjörg Gunnarsdóttir, mannauðsstjóri Reykjalundar, sagði aðspurð í samtali við mbl.is í dag að það væri „ómögulegt“ að segja til um það hvort uppsagnir læknanna yrðu dregnar til baka.

mbl.is