Lögreglumaður sýknaður og fagnaðarlæti brutust út

Fjölmargir lögreglumenn voru mættir í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun.
Fjölmargir lögreglumenn voru mættir í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í morgun lögreglumann af ákæru um brot í starfi. Fjölmargir lögreglumenn voru viðstaddir dómsuppkvaðningu í dómsalnum og fagnaðarlæti brutust út er sýknudómurinn var kveðinn upp.

Lögreglumaðurinn, sem starfar hjá embætti lögreglustjórans á Suðurlandi, var ákærður fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi og brot í opinberu starfi með því að hafa ekki gætt lögmætra aðferða við eftirför í maí á síðasta ári.

Ók lögreglumaðurinn þrívegis á afturhorn bifreiðar ölvaðs ökumanns, sem veitt var eftirför á Þjórsárdalsvegi, með þeim afleiðingum að ökumaður þeirrar bifreiðar missti stjórn á henni á um 95 km/klst. hraða. Bifreiðin endaði utan vegar og valt tvær veltur.

Í ákæru embættis héraðssaksóknara kemur fram að ölvaði ökumaðurinn, sem veitt var eftirför, hafi hlotið brot á hálslið og 10 sentímetra langt sár á hnakka sem var opið inn að höfuðkúpu.

Samkvæmt Vísi voru milli þrjátíu og fjörutíu lögreglumenn mættir í dómsal í morgun til að sýna kollega sínum stuðning en hann hafði greint frá því í gær að honum þætti vænt um að vinir hans sýndu stuðning í verki og mættu í dómsal.

Fagnaðarefni fyrir lögregluna í heild

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, gat ekki verið viðstaddur dómsuppkvaðningu en hafði heyrt af niðurstöðunni þegar mbl.is náði tali af honum og var mjög ánægður með niðurstöðuna.

„Ég veit ekki hvernig dómarinn kemst að orði í dóminum eða í rökstuðningi en miðað við þetta þá blasir það við að þessar aðferðir teljist viðurkenndar eins og ég reyndi að koma inn á í viðtali út af þessu máli þegar ákæran var gefin út á sínum tíma. „Þetta eru viðurkenndar aðferðir, bæði hérlendis og erlendis, og hafa verið kenndar sem slíkar,“ sagði Snorri og bætti við:

„Þetta er fagnaðarefni fyrst og fremst fyrir þennan tiltekna lögreglumann sem fær á sig þessa ákæru að ósekju og svo lögregluna í heild sinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert