Snör handtök sjúkraflutningamanns skiptu sköpum

Lið frá öllum stöðvum slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kallað út …
Lið frá öllum stöðvum slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kallað út á öðrum tímanum í nótt þegar eldur kom upp í kjallaraíbúð í fjölbýlishúsi í Mávahlíð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snör handtök sjúkraflutningamanns sem var meðal fyrstu viðbragðsaðila á vettvang þegar eldur kom upp í kjallaraíbúð í fjölbýlishúsi í Mávahlíð á öðrum tímanum í nótt gerði það að verkum að slökkvistarf gekk vel fyrir sig. 

Þetta segir Gunnlaugur Jónsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Sjúkraflutningamaðurinn tæmdi  úr einu slökkvitæki og slökkti mesta eldinn sem logaði í anddyri íbúðarinnar. Gunnlaugur segir það hafa skipt sköpum og auðveldað slökkvistarf. 

Allar stöðvar slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út vegna eldsins. Strax var ljóst að fólk væri inni í íbúðinni sem þyrfti að koma út og voru reykkafarar sendir inn í íbúðina og björguðu þeir tveimur út um glugga íbúðarinnar. Sá þriðji komst út af sjálfsdáðum.

„Við byrjuðum á því að bjarga fólki út og svo var ráðist á eldinn eftir það og það gekk mjög hratt fyrir sig,“ segir Gunnlaugur. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá lög­reglu er ekki vitað um ástand þeirra sem fluttir voru á slysadeild.

Allar íbúðir hússins voru rýmdar og var áfallateymi Rauða krossins kallað út. Ung kona með lítið barn býr í íbúðinni fyrir ofan og var hún meðal þeirra sem þurftu að yfirgefa húsið. Allir íbúarnir fengu að fara aft­ur í íbúðir sín­ar er slökkvi­starfi lauk. 

Engar skemmdir urðu í öðrum íbúðum, fyrir utan reykjarlykt að sögn Gunnlaugs, en íbúðin sem eldurinn kom upp í er mikið skemmd. „Hún er mikið skemmd vegna elds, reyks og vatns,“ segir Gunnlaugur.  

Búið var að slökkva eldinn um klukkan þrjú í nótt og reykræstingu lauk á fjórða tímanum. Eldsupptök eru ókunn og er rannsókn í höndum tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert