Umræðan um fjárfestingarleið SÍ á „miklum villi­götum“

Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í sam­ræmi við óskrif­aðan prótókol hafði ég hugsað mér að eftir að ég léti af emb­ætti seðla­banka­stjóra myndi ég í nokkurn tíma taka sem minnstan þátt í umræðu um mál­efni Seðla­bank­ans. Ég tel mig hins vegar nauð­beygðan til að gera hér und­an­tekn­ingu vegna þess á hve miklum villi­götum umræðan er um pen­inga­þvætti í tengslum við svo­kall­aða fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­bank­ans á árunum 2011-2015.“

Þetta skrifar Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, í grein um peningaþvætti og fjárfestingleið Seðlabankans sem birtist á Kjarnanum þar sem hann svarar þeim fullyrðingum ritstjóra Kjarnans, Þórðar Snæs Júlíussonar, um að fjárfestingaleiðin hafi verið „opinber peningaþvættisleið.“

Þórður Snær sagði í Silfrinu á RÚV á sunnudaginn að fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands hafi verið ein skýrasta opinbera peningaþvættisleið sem nokkurn tímann hafi verið framkvæmd og að Ísland hafi verið galopið gagnvart peningaþvætti áratugum saman.

Einn albesti blaðamaður landsins hafi villst af leið

Már segir Þórð vera einn albesta blaðamann landsins, ekki síst á sviði viðskipta- og efnahagsmála en að hann hafi villst af leið í umfjöllun sinni um þetta fjárfestingaleið Seðlabankans.

„Sú leið var opnuð í októ­ber 2009 þegar fjár­magns­höft á inn­flæði erlends gjald­eyris vegna nýfjár­fest­ingar hér á landi voru afnum­in. Það var gert sakir þess að greiðslu­jafn­að­ar­vandi Íslands var þá og í mörg ár á eftir útflæð­is­vandi en ekki inn­flæð­is­vandi. Þau sem komu inn með erlendan gjald­eyri eftir þetta þurftu að skipta honum í íslenskar krónur hjá fjár­mála­fyr­ir­tæki hér á landi og til­kynna um við­skiptin til Seðla­bank­ans í gegnum fjár­mála­fyr­ir­tæk­ið. Eftir það höfðu þau hvenær sem er heim­ild til útgöngu með þá fjár­muni og alla ávöxtun þeirra. Sam­kvæmt lögum áttu bank­arnir að kanna slíkar færslur eins og aðrar með til­liti til pen­inga­þvættis og Fjár­mála­eft­ir­litið að hafa eft­ir­lit með því að svo væri gert,“ skrifar Már áður en hann útskýrir málið nánar.

Strangari skilyrði í fjárfestingarleið

Már skrifar að þeir sem hafi tekið þátt í fjárfestingarleiðinni hafi gert það gegnum fjármálafyrirtæki, aðallega verið innlendir viðskiptabankar, sem hafi gert samning við Seðlabankann um slíka milligöngu. Í útboðsskilmálum og milligöngusamningum hafi verið skýrt tekið fram að fjármálafyrirtækin skyldu annast könnun á umsækjendum með tilliti til mögulegs peningaþvættis.

„Það var ófrá­víkj­an­legt skil­yrði að umsókn fylgdi stað­fest­ing fjár­mála­fyr­ir­tækis að slík könnun hefði farið fram með jákvæðri nið­ur­stöðu. Ætla mætti að þetta hafi valdið því að fjár­mála­fyr­ir­tækin væru meir á varð­bergi en alla jafna. Þessu til við­bótar máttu umsækj­endur ekki hafa brotið gegn fjár­magns­höft­unum eða vera til rann­sóknar fyrir slík brot. Seðla­bank­inn kann­aði sjálfur þetta atriði. Rétt er að geta þess að skatt­rann­sókn­ar­stjóri hefur fengið allar upp­lýs­ingar um þá sem tóku þátt í fjár­fest­ing­ar­leið­inni,“ skrifar Már.

Því hafi þeir þau sem ætluðu sér að flytja illa fengið fé til landsins betur gerð það eftir almennum leiðum sem hafi verið opnar.

Fjárfestingaleiðin ekki komið Íslandi á gráa listann

Þá segir Már að umræður um fjárfestingaleiðina og tengsl hennar við peningaþvætti hafi blossað upp í framhaldi af ákvörðun FATF að setja Ísland á gráan lista varðandi varnir gegn peningaþvætti.

„Ef það væri rétt sem haldið hefur verið fram að fjár­fest­ing­ar­leiðin hafi verið opin­ber pen­inga­þvætt­is­leið mætti halda að gerð hafi verið athuga­semd við hana í skýrslum FATF. Mér er kunn­ugt um að sendi­nefnd FATF hafi fengið kynn­ingu á fjár­fest­ing­ar­leið­inni og hafi verið afhentir skil­málar hennar á ensku í aðdrag­anda skýrslu FATF sem birt var á síð­asta ári. Engar athuga­semdir voru gerðar við fjár­fest­ing­ar­leið­ina í skýrsl­unni né síðar en FATF er ekki þekkt fyrir að sitja á sér varð­andi slíkt ef til­efni þykir til,“ bætir Már við.

Hann útilokar þó ekki að illa fengið fé hafi sloppið í gegnum nálarauga fjárfestingarleiðarinnar þótt ekkert bendi til þess að það hafi verið algengt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert