Herða reglur því sjúkrasjóður BHM tæmist brátt

Útgjöld sjúkrasjóðs Bandalags háskólamanna halda áfram að aukast á þessu …
Útgjöld sjúkrasjóðs Bandalags háskólamanna halda áfram að aukast á þessu ári en tekjurnar hafa ekki vaxið að sama skapi þar af leiðandi hefur reglum um úthlutun úr sjóðnum verið breytt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útgjöld sjúkrasjóðs Bandalags háskólamanna halda áfram að aukast á þessu ári en tekjurnar hafa ekki vaxið að sama skapi þar af leiðandi hefur reglum um úthlutun úr sjóðnum enn einu sinni verið breytt. Nýjar úthlutunarreglur sjúkrasjóðs BHM taka gildi 1. nóvember. Þetta var samþykkt á fundi stjórnarar Sjúkrasjóðs BHM í síðustu viku. 

Hámarkstími sem sjóðfélagi getur fengið greidda sjúkradagpeninga verður fjórir mánuðir í stað níu mánaða. Í undantekningartilvikum er möguleiki á framlengingu í einn mánuð við sérstakar aðstæður. Á móti kemur að upphæð sjúkradagpeninga verður 80% af grunni inngreiðslna í stað 70%. Vegna alvarlegra veikinda barna greiðir sjóðurinn tvo mánuði í sjúkradagpeninga í stað þriggja. 

Á síðustu árum hefur reglum um úthlutun úr sjúkrasjóðnum verið breytt í takt við aukna ásókn í hann þegar fyrirséð er að hann nær ekki að standa undir sér, að sögn Maríönnu Hugrúnar Helgadóttur formanns sjúkrasjóðs BHM. Til að mynda hefur gleraugnastyrkur verið felldur úr gildi vegna ásóknar í sjúkrasjóðinn. 

Sjúkradagpeningar sífellt meiri byrði

„Ár eftir ár og mánuð eftir mánuð hafa sjúkradagpeningar orðið meiri byrði á sjóðinn. Við verðum því að breyta reglunum til að eiga fjármuni til að greiða út úr sjóðnum,“ segir Maríanna. Iðgjaldið sem rennur í sjóðinn er 1% af launum félagsmanna og er það lögbundið. Fjöldi félagsmanna ræður hversu há upphæð rennur í sjóðinn.    

„Ég held að fólk hafi skilning á því að ef sjóður getur ekki staðið við skuldbindingar sínar þarf sjóðurinn að gera breytingar til að geta staðið undir þeim því annars verður hann gjaldþrota,“ segir Maríanna. Hún tekur fram að þessi ráðstöfun geti hins vegar ekki haft góð áhrif til lengri tíma litið „því fólk ræður ekki hvort það verður veikt eða ekki.”

Fleiri á almenna markaðnum en á hjá hinum opinbera

Á síðustu þremur árum hafa fleiri óskað eftir sjúkradagpeningum úr sjúkrasjóði BHM. Tveir sjúkrasjóðir eru innan Bandalags háskólamanna. Annars vegar er það Sjúkrasjóður fyrir almenna markaðinn og hins vegar Styrktarsjóður fyrir opinbera markaðinn það er að segja fyrir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga.

Maríanna H. Helgadóttir
Maríanna H. Helgadóttir Ljósmynd/Aðsend

„Það er mjög sérstakt að mikil aukning hefur verið í sjúkrasjóð BHM en ekki eins mikil aukning í Styrktarsjóðinn. Við áttum okkur ekki á því af hverju þessi þungi kemur svona mikið hjá okkur en ekki hjá hinum sjóðnum,“ segir Maríanna og bætir við „það getur ekki verið að veikindi leggist bara á starfsfólk almenna markaðarins en ekki á hina. Það er umhugsunarvert af hverju þetta gerist“.

Ekki hafa verið gerðar rannsóknir á því hvaða hópar um ræðir eða hvernig veikindunum er háttað. Á síðasta ári var gerð sú krafa að samhliða því að skila inn læknisvottorði þyrfti að skila inn sjúkradagpeningavottorði. „Við höfum ekki verið að skoða það en núna gætum við greint hvernig þetta skiptist,“ segir hún. Slíkar rannsóknir á hópnum gætu mögulega stuðlað að því að hægt yrði að grípa til ráðstafanna.  

Í þessu samhengi bendir hún á að eftirspurnin eftir að komast að hjá Virk starfsendurhæfingarmiðstöð hafi einnig aukist. Hvað veldur segist Maríanna ekki hafa svör á reiðum höndum.

Áætlað er fyrir þetta ár, árið 2019, verði tekjur í sjóðinn um 307 milljónir króna og áætlaðir styrkir verði um 287 milljónir króna. „Það eru þungir mánuðir framundan og yfirleitt eru meiri greiðslur úr sjóðnum á síðari hluta ársins og þess vegna brugðumst við við núna með þessum hætti,“ segir hún. 

Til samanburðar voru tekjur í sjóðinn árið 2018 um 280 milljónir króna en útgjöld sjóðsins voru 292 milljónir króna. Um síðustu áramót voru úthlutunarreglum breytt þegar halli var á sjóðnum. „Ef við hefðum ekkert gert núna stæðum við frami fyrir um 30 milljón króna halla,“ segir Maríanna.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert