MAX-vélar Icelandair í loftið í fyrsta lagi í febrúar

Icelandair gerir ekki ráð fyrir MAX-vélum í rekstur út febrúar …
Icelandair gerir ekki ráð fyrir MAX-vélum í rekstur út febrúar 2020. mbl.is/Hari

Icelandair gerir ekki ráð fyrir að Boeing 737 MAX flugvélar verði komnar aftur í rekstur fyrr en í lok febrúar 2020. Félagið hefur uppfært flugáætlun sína í janúar og febrúar á næsta ári. Fram kemur í tilkynningu að ákvörðunin hafi lítil áhrif á flugáætlun félagsins í vetur sem þegar hefur verið kynnt.

Félagið mun halda áfram að leggja áherslu á ferðamannamarkaðinn til Íslands og draga úr vægi skiptifarþega í vetur. „Nú þegar hefur félagið aðlagað áætlun sína að þessum áherslum með því að færa tíðni á milli áfangastaða og nýta flugflotann á leiðum þar sem eftirspurn eftir ferðum til Íslands er áætluð mikil,“ segir í tilkynningu. 

Með þessum breytingum gerir Icelandair ráð fyrir töluverðri fjölgun farþega Icelandair til landsins í janúar og febrúar miðað við sama tíma í fyrra.

„Eins og við höfum áður sagt, teljum við ólíklegt að MAX vélarnar verði komnar aftur í rekstur fyrir lok þessa árs. Við viljum hins vegar lágmarka áhrif á farþega okkar og framlengja þetta tímabil með góðum fyrirvara, enda gott svigrúm hjá okkur á þessum árstíma að nýta aðrar vélar í flotanum hjá okkur,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, í tilkynningu. 

Félagið heldur áfram að fylgjast með þróun mála varðandi afléttingu kyrrsetningar MAX vélanna. Nú fer fram yfirgripsmikið og vandað ferli sem stýrt er af alþjóða flugmálayfirvöldum með það að markmiði að tryggja öryggi vélanna og koma þeim aftur í rekstur.

Eins og tilkynnt var um í september síðastliðinn gerði Icelandair Group bráðabirgðasamkomulag við Boeing um bætur fyrir hluta þess tjóns sem félagið hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningar MAX vélanna. Áframhaldandi viðræður við Boeing um að fá heildartjón vegna kyrrsetningarinnar bætt standa yfir, að því er fram kemur í tilkynningu Icelandair. 

mbl.is