Stefna að því að þjónustan verði í sömu gæðum

Ólafur Þór Ævarsson er nýr framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi.
Ólafur Þór Ævarsson er nýr framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi. Ljósmynd/Aðsend

Sex læknar á Reykjalundi hafa sagt starfi sínu lausu, sá fyrsti sagði upp störfum í ágúst. Sú uppsögn er ótengd hinum fimm, sem eru vegna óánægju með störf stjórn­ar SÍBS. Þrír þeirra sem sögðu upp í október ætla að vinna þriggja mánaða uppsagnarfrest sinn og sinna sjúklingum út janúar. Einn hættir um mánaðamótin og sá sjötti hefur ekki upplýst hvenær hann hyggst láta af störfum. 

„Aðgerðaráætlun er komin af stað og við stefnum að því að þjónustan verði veitt af sömu gæðum og í sama magni en auðvitað munar um hvern lækni,“ segir Ólafur Þór Ævarsson framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi. Ekki verður tekið við færri sjúklingum á Reykjalund vegna uppsagnanna. 

Fyrrgreind störf verða auglýst en í millitíðinni er unnið að því að fá lækna til að starfa tímabundið á Reykjalundi. „Læknum er hlýtt til Reykjalundar. Ég hef fundið það innan læknastéttarinnar,“ segir Ólafur. 

„Ég vildi óska að svo væri en ég er því miður ekki bjartsýnn á það,“ segir hann spurður hvort hann telji að einhverjir þessara lækna hyggist draga uppsögn sína til baka.

mbl.is