Útilokar ekki að flugáætlun gæti raskast

Flugmenn hjá Air Iceland Connect telja sig hafa setið eftir …
Flugmenn hjá Air Iceland Connect telja sig hafa setið eftir í kjörum samanborið við aðrar flugmannahópa sem hafa gert kjarasamninga undanfarin tvö ár. mbl.is/Árni Sæberg

„Við sjáum ekki að þetta eigi að hafa mikil áhrif, þannig séð, þetta er bara yfirvinnubann og ef mönnun flugfélagsins er í lagi þá ætti það nú ekki að hafa mikil áhrif,“ segir Ragnar Friðrik Ragnars, flugmaður sem situr í samninganefnd flugmanna hjá Air Iceland Connect, um boðaða vinnustöðvun flugmanna félagsins, sem samþykkt var með yfirgnæfandi meirihluta á þriðjudag.

Er kosið var um vinnustöðvunina, sem á að taka gildi um mánaðamót, voru fjörutíu flugmenn á kjörskrá. Þrjátíu og fjórir þeirra greiddu atkvæði og voru 32 sammála því að boða til yfirvinnubanns, sem felur það í sér að flugfélaginu verður ekki heimilt að kaupa vinnu af flugmanni á frídegi hans né að kaupa viðbótar vakttíma af flugmanni á vinnudegi.

Ragnar útilokar ekki að boðaðar aðgerðir gætu orðið til þess að það þyrfti að fella niður flug hjá félaginu, ef að veikindi eða annað myndi raska mönnun. „Það er alltaf möguleiki að það geti gerst, ef að mönnun er eitthvað tæp einhverja daga þá getur það gerst, en við sjáum það ekki endilega fyrir okkur. En, aldrei að segja aldrei.“

Vél Air Iceland Connect lendir í Vatnsmýri. Flugmaður í samninganefnd …
Vél Air Iceland Connect lendir í Vatnsmýri. Flugmaður í samninganefnd segist ekki útiloka að röskun gæti orðið á flugáætlun vegna boðaðs yfirvinnubanns flugmanna. mbl.is/Árni Sæberg

Spurður hvort mönnun sé almennt góð hjá flugfélaginu svarar Ragnar því til að flugfélagið vilji meina það að hún sé í lagi. „En það hafa verið uppsagnir á þessu ári og maður veit ekki hvernig það á eftir að koma út,“ segir hann og bætir við að hluti uppsagna sem flugfélagið hafi ráðist í komi til framkvæmda 30. nóvember.

„En flugfélagið vill meina að þetta sé allt í góðu, þannig að við eigum ekkert von á allt hnykkist úr liðnum sko, alls ekki. Menn ætla bara að taka frídagana sína og við ætlum ekkert í almennar verkfallsaðgerðir.“

Telja sig hafa setið eftir öðrum flugmannahópum

Ragnar segir að það beri talsvert á milli í samningaviðræðum, annað sé ekki hægt að segja. Hann segir að flugmenn hjá Air Iceland Connect hafi „setið eftir“ í samanburði við flugmannahópa hjá öðrum flugrekendum í landinu sem hafi gert kjarasamninga á síðustu tveimur árum.

„Það var gerður millibilssamningur síðasta sumar, 2018, sem átti bara að vera millibilssamningur, en eftir það hafa ekki náðst neinir samningar sem eru á pari við það sem aðrir hópar hafa fengið,“ segir Ragnar. Flugmenn Air Iceland Connect hafa verið með lausa kjarasamninga frá áramótum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert