Vakti athygli á mögulegu vanhæfi dómara

Ragnar Aðalsteinsson á leið í dómssal í morgun þar sem …
Ragnar Aðalsteinsson á leið í dómssal í morgun þar sem hann vakti athygli á mögulegu vanhæfi Sigrúnar. mbl.is/Hari

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarp­héðins­son­ar sem sýknaður var af ákæru í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu, vakti athygli á mögulegu vanhæfi dómara í máli Guðjóns á hend­ur rík­inu sem var þingfest í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í morgun. 

Sigrún Guðmundsdóttir, héraðsdómari er dómari í málinu. Hún kveðst viss um hæfi sitt. Ragnar sagði að um væri að ræða öryggisráðstöfun.

„Það er afar dýrt að reka málið í eitt ár og komast þá að því að eithvað sé að forminu,“ sagði Ragnar. 

Tilefni þessa er að fjölmargir, um 200 manns, hafi komið að Guðmundar- og Geirfinnsmálinu síðan það hófst. Því væru líkur á því að Sigrún hafi einhver tengsl við aðila sem að málinu hafa komið og það þyrfti að kanna.

Málið gæti ónýst

„Ég hef enga ástæðu til að ætla vanhæfi en mér ber sem lögmanni að koma í veg fyrir það að ágallar séu á formi málsins. Það eru óvenju margir aðilar sem koma að málinu en þeir eru ekki allir nefndir í skjölum málsins,“ sagði Ragnar. 

„Ef í ljós kemur að dómarinn eða fjölskylda hans hafi einhver tengsl við málið þá ónýtist það.“

Faðir Sigrúnar var á sínum tíma hæstaréttardómari. Hann tengist málinu þó ekki með neinum hætti líkt og bæði Ragnar og Sigrún vöktu athygli á.

Andri á leið í dómssal. Hann setti ekki fram athugasemdir …
Andri á leið í dómssal. Hann setti ekki fram athugasemdir um hæfi Sigrúnar. mbl.is/Hari

Sigríður benti á að dómarar meti hæfi sitt sjálfir og sagðist hún alveg viss um hæfi sitt.

Andri Árnason, settur ríkislögmaður, hafði ekki athugasemdir við hæfi dómarans.

Nú þegar hefur ríkislögmaður, Einar Karl Hallvarðsson, sagt sig vanhæfan til að fjalla um málið. Því var Andri skipaður settur ríkislögmaður í  bóta­mál­um þeirra sem sýknaðir voru nú haust um aðild að hvarfi Guðmund­ar og Geirfinns Ein­ars­son­ar. 

Faðir Ein­ars , Hall­v­arður Ein­v­arðsson, var vara­rík­is­sak­sókn­ari þegar rann­sókn á Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­um hófst um ára­mót­in 1975-76. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert