Vill ekki bíða eftir Alþingi

Ragnar Aðalsteinsson á leið í dómssal í morgun. „Það er …
Ragnar Aðalsteinsson á leið í dómssal í morgun. „Það er auðvitað erfitt að spá fyrir um dóma en ég er auðvitað bjartsýnn á að hann fái verulegar bætur,“ segir Ragnar. Haraldur Jónasson/Hari

„Ég sé ekki að umbjóðandi minn þurfi að bíða eftir því sem stefndi er að fást við. Þetta er óvissa sem ekki getur ríkt í málinu,“ segir Ragn­ar Aðal­steins­son, lögmaður Guðjóns Skarp­héðins­son­ar sem sýknaður var af ákæru í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu. 

Guðjón höfðar nú mál gegn ríkinu vegna bótagreiðslu til hans upp á 1,3 milljarð. Málið var þing­fest í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í morg­un. 

Ragnar er ósammála Andra Árna­syni, settum ríkislögmanni, sem telur að mikilvægt sé að sjá hver framvinda frumvarps forsætisráðherra vegna bóta verði á Alþingi. Andri bað um frest fyrir dómi í morgun og var málinu frestað um fjórar vikur.

„Forsætisráðherra er búinn að boða breyttar kröfur,“ segir Ragnar. Hann sér ekki hvers vegna fresta þurfi málinu. Ragnar hreyfði þó ekki andmælum frestun var ákveðin í morgun. 

Ragnar lagði frumvarpið sjálft fram sem málsgögn í morgun.

„Það er vegna þess að ríkið hefur eina stefnu á Alþingi og aðra hér fyrir dómi.“

Fyrir dómi í dag óskaði Ragnar eftir breyttum kröfum ríkisins til bótaréttar í máli Guðjóns. Hann taldi víst að kröfugerð yrði breytt enda hefði forsætisráðherra sagt það. 

„Veldur mér réttarspjöllum“

Ragnar segir að það að stefnur ríkisins séu af tvennum toga valdi vandræðum fyrir hann og hans umbjóðanda. 

„Það veldur mér réttarspjöllum vegna þess að ég gat ekki brugðist við greinargerð stefnda í þessu þinghaldi vegna þess að ég vissi ekki hverju ég ætti von á.“

Ragnar telur bótarétt Guðjóns skýlausan. „Það mun að lokum ekki verða umdeilt, það er bara fjárhæðin sem um ræðir.“

Spurður hvort málarekstri Guðjóns muni ljúka ef hann fær þær bætur sem hann krefst segir Ragnar að svo muni verða. Hann telur góðar líkur á að Guðjóni verði dæmt í vil.

„Það er auðvitað erfitt að spá fyrir um dóma en ég er auðvitað bjartsýnn á að hann fái verulegar bætur sem skiptir bæði máli fyrir hann og til áminningar fyrir ríkið um að gæta að framkomu starfsmanna sinna framvegis hvað varðar réttaröryggi.“

Ragnar vakti í morgun athygli á mögulegu vanhæfi Sigrúnar Guðmundsdóttir, dómarans í málinu. Um það segir hann: „Það eru aðilar sem gætu gert hana vanhæfa þó ég viti ekki til þess að þeir geri það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert