„Þetta verður miðstöð ástar og umhyggju“

Teikning af fyrirhuguðu bænahúsi Félags múslima á Íslandi.
Teikning af fyrirhuguðu bænahúsi Félags múslima á Íslandi. Skjáskot/Félag múslima á Íslandi

„Þetta verður miðstöð ástar og umhyggju,“ segir Salmann Tamimi, formaður Félags múslíma á Íslandi, en 20 ára langri bið félagsins eftir viðunandi bænahúsi lýkur brátt, gangi áætlanir eftir. Salmann segist fullur tilhlökkunar, hann segir að ekki komi til greina að þiggja fé til framkvæmdanna frá ríkjum þar sem iðkuð sé öfgafull íslamstrú og biðlar til íslensku þjóðarinnar um að leggja framkvæmdunum lið.

Beiðni Félags múslíma á Íslandi um að byggja tæplega 678 fermetra bænahús á lóðinni Suðurlandsbraut 76 var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar á þriðjudaginn. Húsið verður á tveimur hæðum, sú neðri verður rúmir 598 fermetrar og sú efri rúmlega 79 fermetrar. Frágangi utanhúss og lóðar á að vera lokið ekki síðar en tveimur árum eftir að leyfið var veitt. Salmann segir að framkvæmdir muni hefjast í vor eða sumar og er vongóður um að húsið muni rísa hratt, en það verður byggt úr forsteyptum einingum.

Salmann Tamimi mbl.is/Golli

Hann segir að húsið verði tekið í notkun um leið og það verði fokhelt. „Eða a.m.k. þegar það verður tilbúið undir tréverk. Við hlökkum svo til að ég held að við getum ekki beðið lengur,“ segir Salmann.

Teikning sem sýnir fyrirhugaða mosku Félags múslíma á Íslandi við Suðurlandsbraut 76 Skjáskot/https://icelandmosque.islam.is/

Vonandi síðasta skrefið í 20 ára ferli

Hann segir að bygging hússins sé vonandi síðasta skrefið í ferli sem hófst árið 1999. Félagið hafi verið stofnað árið 1997 og tveimur árum síðar hafi verið ákveðið að reisa bænahús fyrir starfsemina. Frá 2000 hefur félagið verið til húsa í Ármúla og Salmann segir að þar sé fyrir löngu orðið of þröngt, en um 560 eru skráð í félagið. Hann býst við að það verði starfseminni mikil lyftistöng þegar nýja húsið verður risið.

„Við getum gert svo margt í nýja húsinu sem við getum ekki núna. Húsið á að vera opið allan daginn, þar verður bænasalur og bókasafn og salur þar sem fólk getur komið saman. Við ætlum að vera með fallegan garð; við viljum hafa fallegt í kringum okkur. Það er nauðsynlegt,“ segir Salmann.

Treystir á almættið og alla landsmenn

Spurður hvernig framkvæmdin verði fjármögnuð segist Salmann treysta á almættið, múslíma á Íslandi og landsmenn alla. Hér á landi séu á milli 2.000 og 3.000 múslímar sem muni taka þátt í kostnaðinum. „Líklega munum við fjármagna þetta að mestu leyti sjálf, með hjálp Allah. En við ætlum líka að stofna reikning sem allir þeir, sem vilja fallegt samfélag sem einkennist af ást og umhyggju, geta lagt inn á. Þetta er hús fyrir alla þjóðina, þetta verður miðstöð ástar og umhyggju. Öll trúarbrögð, sérstaklega íslamstrú, einblína á þá sem minna mega sín. Við viljum skila betra og fallegra samfélagi og hvetjum alla til að vera með okkur í því. Annars finnst mér líka að ríkið ætti að koma að byggingunni.“

Takið þið við fé erlendis frá til að byggja húsið? „Við myndum aldrei taka við fé frá ríkjum eins og Sádi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum eða Bandaríkjunum sem eru að eyðileggja lönd og þjóðir. Við viljum ekki peninga frá löndum þar sem öfgafull trú er iðkuð - við erum frjáls. Við myndum frekar sleppa því að byggja húsið en að taka við peningum frá þessum löndum,“ segir Salmann og bætir við að hugsanlega muni félaginu berast einhver styrkur frá félögum múslíma á hinum Norðurlöndunum eða í Evrópu.

Teikning sem sýnir útlit moskunnar. Skjáskot/https://icelandmosque.islam.is/

Býður alla velkomna

Nokkur gagnrýni hefur verið í gegnum tíðina á þessi byggingaáform Félags múslíma. Salmann segist telja að hún sé fyrst og fremst byggð á vanþekkingu. „Ég skil vel að fólk, sem aldrei hefur þekkt neinn múslíma eða kynnt sér íslamstrú, sé hrætt. Það er ekkert nýtt að fólk hafi fordóma gagnvart trúarbrögðum, t.d. voru mormónar hraktir frá Íslandi í byrjun síðustu aldar. Það sem við sjáum fyrir okkur með nýja húsinu er að geta tekið á móti fólki sem vill kynna sér það sem við trúum á, fólki sem vill sjá hvað við erum að gera,“ segir Salmann og bætir við að allir séu velkomnir í núverandi aðsetur félagsins í Ármúla.

„Rétt eins og ég og allir aðrir geta farið í hvaða kirkju sem er - þá eru allir velkomnir til okkar,“ segir Salmann.

Svona verður moskan sem rísa á við Suðurlandsbraut 76
Svona verður moskan sem rísa á við Suðurlandsbraut 76 Skjáskot/https://icelandmosque.islam.is/
mbl.is