Þar segir, að það sé staðfest að notkun ljósabekkja fylgi aukin hætta á húðkrabbameini enda hafi Alþjóðakrabbameinsrannsóknarstofnunin (IARC) sett ljósabekki í Flokk 1 árið 2009 en í honum séu staðfestir krabbameinsvaldar.

Ennfremur segir, að einnig hafi verið sýnt fram á að allri notkun ljósabekkja fylgi aukin hætta á húðkrabbameini sem og að hættan á húðkrabbameini aukist verulega þegar notkun ljósabekkja hefjist fyrir 30 ára aldur.

„Samstarfshópur Geislavarna, Embættis Landlæknis, húðlækna og Krabbameinsfélagsins hefur fylgst með ljósabekkjanotkun á Íslandi frá árinu 2004 með árlegri könnun sem framkvæmd hefur verið af Gallup.  Könnun ársins 2018 sýndi að um 8% fullorðinna Íslendinga höfðu notað ljósabekk á undangengnum 12 mánuðum. Könnun ársins 2016 sýndi að um 21% ungmenna (12-23 ára) höfðu notað ljósabekk á undangengnum 12 mánuðum. Geislavarnir kynntu m.a. þessar niðurstöður í erindi um þróun ljósabekkjanotkunar á Íslandi á ráðstefnu Norræna Geislavarnafélagsins (NSFS) í Finnlandi árið 2019.

Um sólarlampa (ljósabekki) gildir reglugerð 810/2003 um notkun sólarlampa og í lögum nr. 44 frá 2002 um geislavarnir eru ákvæði um að einstaklingum yngri en 18 ára séu óheimil afnot af sólarlömpum í fegrunarskyni á stöðum sem þurfa starfsleyfi svo sem á sólbaðstofum, heilsuræktarstöðvum og íþróttamiðstöðvum. Sambærileg ákvæði eru einnig í lögum í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð,“ segir í yfirlýsingu Geislavarna ríkisins.