Nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð 2040

Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda skrifuðu í dag undir samkomulag …
Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda skrifuðu í dag undir samkomulag um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda hafa skrifað undir samkomulag um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar. Markmið samkomulagsins er að stuðla að framþróun og nýsköpun í nautgriparækt. Þá eru samningsaðilar sammála um það markmið að íslensk nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð eigi síðar en árið 2040. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins

Fallið verður frá niðurfellingu heildargreiðslumarks sem átti að taka gildi þann 1. janúar 2021 og mun því greiðslumark gilda áfram út samningstímann. Greiðslumark heldur sér þar af leiðandi sem kvóti sem tryggir forgang að innanlandsmarkaði og sem viðmiðun fyrir beingreiðslur. 

Viðskipti með greiðslumark verða leyfð að nýju frá og með árinu 2020 og munu þau byggja á tilboðsmarkaði sem er sama markaðsfyrirkomulag og gilti á árunum 2011-2016. Vissar takmarkanir verða á viðskiptum með greiðslumark sem verða útfærðar nánar í reglugerð.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að með samkomlaginu sé verið að stíga mikilvæg skref fyrir frekari framþróun íslenskrar nautgriparæktar, m.a. með því að viðhalda kvótakerfi í mjólkurframleiðslu sem hefur ýtt undir þá miklu hagræðingu sem orðið hefur í greininni til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. 

Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda, telur samninginn vera greininni til mikilla heilla. „Kúabændur eru hér að leggja okkar af mörkum í loftslagsmálum með metnaðarfullum markmiðum um kolefnisjöfnun á næstu árum,“ er haft eftir honum í tilkynningu. 

Markmiðum um kolefnisjöfnunin verður m.a. náð með því að byggja upp þekkingu á losun og bindingu kolefnis, bættri fóðrun, meðhöndlun og nýtingu búfjáráburðar, markvissri jarðrækt og öðrum þeim aðgerðum er miða að því að kolefnisjafna búskap. Slíkar áherslur falla vel að öðrum verkefnum á sviði kolefnisbindingar svo sem skógrækt. Skal að því stefnt að allar afurðir frá íslenskum nautgripabændum verði vottaðar sem kolefnishlutlausar fyrir árið 2040.

Til að stuðla að kolefnishlutleysi íslenskrar nautgriparæktar eru samningsaðilar sammála um að ráðstafa fjármagni af samning um starfsskilyrði nautgriparæktar til aðgerða í loftslagsmálum. 

Tekið verður til skoðunar að innleiða fjárhagslega hvata fyrir bændur til að ná árangri í að auka bindingu kolefnis.

Strax í kjölfar undirritunarinnar verður skipaður starfshópur sem fær það hlutverk að útfæra atriði samkomulagsins nánar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert