Sveik fé út úr fólki á sölusíðum á netinu

Meðal vara sem maðurinn auglýsti á sölusíðum á netinu voru …
Meðal vara sem maðurinn auglýsti á sölusíðum á netinu voru Ipod nano 4, tónleikamiðar, róðravél, nagladekk, rúm og bíll og nýtti hann sér sölusíður eins og Brask og brall á Facebook og kynnti sig undir fölsku nafni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir fjársvikabrot. Maðurinn þóttist ítrekað ætla að selja fólki ýmis konar varning á netinu, fékk það til að leggja inn á sig pening en afhenti svo aldrei vörurnar. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms Norðurlands eystra að brotin áttu sér stað árið 2018 og eru þau 22 talsins. Meðal vara sem maðurinn auglýsti á sölusíðum á netinu voru Ipod nano 4, tónleikamiðar, róðravél, nagladekk, rúm og bíll og nýtti hann sér sölusíður eins og Brask og brall á Facebook og kynnti sig undir fölsku nafni, Sigurður Magnússon. Oftar en ekki svaraði hann færslum þar sem notendur óskuðu eftir að kaupa ákveðna vöru og sagðist hann eiga það sem óskað var eftir. 

Alls sveik hann fé út úr 22 manns á tímabilinu, allt frá 10 til 80 þúsund krónum í hvert skipti. Alls sveik hann út 684.680 krónur. Þrír krefjast bóta vegna fjársvikanna. 

Maðurinn játaði sök fyrir dómi. Hann á að baki langan afbrotaferil, meðal annars vegna skjalafals, ránstilraun, brot  gegn valdstjórninni,hótanir og umferðarlagabrot, líkamsárás og fjársvik. 

Auk fangelsisvistar var maðurinn dæmdur til að greiða samtals 952.355 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarþóknun og útlagðan kostnað skipaðs verjanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert