Hafði strax skýra sýn

„Mig langaði að opna safnið meira út í samfélagið; að ...
„Mig langaði að opna safnið meira út í samfélagið; að leggja áherslu á að safn sem er rekið fyrir almannafé sé griðastaður fyrir fólkið,“ segir safnstjórinn Ólöf Kristín Sigurðardóttir. mbl.is/Ásdís

Það er mánudagsmorgunn og safnið er nýopnað. Reyndar er Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsinu opið 363 daga á ári þannig að þar koma gestir sjaldan að lokuðum dyrum. Blaðamaður er mættur til fundar við safnstjórann Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur en hún hefur verið þar við stjórnvölinn í fjögur ár.

Skemmtilegt og mikil áskorun

Ólöf tók við starfi safnstjóra í ágúst árið 2015 og segist hún hafa tekið við góðu búi af Hafþóri Yngvasyni sem stjórnaði safninu í tíu ár þar á undan. Ólöf segist vel geta hugsað sér að sitja í áratug en starfið er tímabundið og tíu ár er hámarkið sem safnstjóri má sitja.

„Mér finnst þetta svo skemmtilegt og svo mikil áskorun. Þetta er svo gefandi starf að það hálfa væri nóg,“ segir hún.

„Ég kom reyndar ekki ókunnug að þessu verkefni því ég var búin að vinna svo lengi hér áður en ég tók við sem safnstjóri. Ég þekkti innviði stofnunarinnar og hafði strax skýra sýn á það hvar væru tækifæri til úrbóta,“ segir Ólöf en hún er í grunninn með próf úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands og meistarapróf frá School of the Art Institute í Chicago þar sem hún sérhæfði sig í stjórnun listasafna og sýningarstjórnun.

Griðastaður landsmanna

„Svo þegar ég tók við hér fann ég að hér voru væntingarnar miklar. Fólk væntir þess að þetta safn sé áhugavert og spennandi,“ segir Ólöf og tekur fram að safnið hafi síður en svo verið illa rekið áður en auðvitað hafi hún komið inn með nýjar áherslur.

„Mig langaði að opna safnið meira út í samfélagið; að leggja áherslu á að safn sem er rekið fyrir almannafé sé griðastaður fyrir fólkið. Ég vil að fólk geti komi hingað og upplifað þá sögu sem myndlistin speglar um samtíma okkar og fortíð og jafnvel hvernig hún getur verið vegvísir inn í framtíðina. Auðvitað þurfum við að vera með vandaðar sýningar; það er grundvallaratriði. Það þurfa að vera sýningar sem tala inn í samtímann og eru ekki á skjön við það sem fólk er almennt að velta fyrir sér í samfélaginu. Við fylgjum sýningunum eftir með vönduðum textum sem eru aðgengilegir og ókeypis. Síðan þarf að ná til fólks í gegnum miðlun og gera hana opna og aðgengilega,“ segir Ólöf.

„Safnið hefur vaxið mikið en margir eru þó enn pínu hræddir við stofnanir eins og þessa og sumum finnst þeir ekki eiga erindi inn á listasafn en hluti af þessari stefnu okkar var að vera opin og bjóða fólk velkomið og um leið veita því góða þjónustu,“ segir Ólöf og nefnir að allt starfsfólk Listasafnsins telur um fjörutíu manns.

Gaman að vera á gólfinu

Þegar Ólöf er spurð hvernig hún velji listamenn til að sýna, svarar hún: „Þetta er stórt safn með þrjá sýningarsali, þannig við höfum tækifæri til hafa fjölbreyttar sýningar,“ en auk Hafnarhússins eru Kjarvalsstaðir og Ásmundarsafn undir Listasafni Reykjavíkur.

„Ég vil segja margar og fjölbreyttar sögur. Við reynum að tala við alla, en ekki alla í einu. Við höfum skyldur við skapandi listamenn og við listasöguna út frá okkar safneign en mér finnst líka mjög mikilvægt að taka saman feril einstaka listamanna eins og til dæmis á við um yfirlitssýningu á verkum Ólafar Nordal á Kjarvalsstöðum og sýningu á verkum Magnúsar Pálssonar í Hafnarhúsi. Safnið er líka afar mikilvægur vettvangur nýsköpunar þar sem róttækar hugmyndir komast á flug,“ segir Ólöf.

„Ég er sýningarstjóri einstaka sýninga og þar að auki finnst mér stundum ægilega gaman að vera á gólfinu þótt mér þyki líka ótrúlega skemmtilegt að horfa yfir völlinn,“ segir hún.

Út fyrir sýningarsalinn

Talið berst að list í almannarými en Listasafn Reykjavíkur sér um útilistaverk borgarinnar.

„Ég er sannfærð um að list í almannarými sé mikilvæg því listin er þar með komin út fyrir afmörkuð sýningarými. Þetta ár er helgað myndlist í almannarými en við byrjuðum árið á að tilkynna verk sem vann samkeppni Reykjavíkurborgar um útilistaverk og á að fara upp í Vogabyggð. Það vakti talsverða athygli á list í almannarými,“ segir hún en mikið fjaðrafok var í samfélaginu yfir þessu verki og þótti sumum illa farið með almannafé. Einnig efuðust sumir um að trén myndu lifa af, en tillagan sem vann var verk þar sem pálmatré standa inni í glerhjúpum.

Verður verkið sett upp?

„Já, það hefur ekki verið tekin ákvörðun um annað,“ segir Ólöf og segir fordæmi fyrir því að fólk sé efins þegar gera á eitthvað nýstárlegt og nefnir Vatnsbera Ásmundar Sveinssonar í því samhengi.

„Fólk verður óöruggt gagnvart nýstárlegum hugmyndum. En það er engin ástæða til að véfengja þær tæknilegu útfærslur sem fylgja verkinu. Ég held að við mættum verja meira fé í list í almannarými og það mætti vera oftar svona samkeppni. En það er kannski hollt fyrir okkur að ræða annað slagið hvað sé list.“

Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »