„Kæmi mér á óvart ef þetta yrði fellt“

Seyðsifjarðarkaupstaður er eitt af fjórum sveitarfélögum þar sem íbúar kjósa …
Seyðsifjarðarkaupstaður er eitt af fjórum sveitarfélögum þar sem íbúar kjósa um sameiningu. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það kæmi mér á óvart ef þetta yrði fellt,“ segir Björn Ingimarsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs um kosningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi um sameiningu. Íbúar í Fljótsdalshéraði, á Seyðisfirði, í Djúpavogi og í Borgarfjarðarhrepp kusu í dag um sameiningu sveitarfélaganna. 

Alls eru um 3.500 einstaklingar á kjörskrá. Kjörstöðum var lokað á Borgarfirði eystri og á Djúpavogi klukkan sex í kvöld. Í Djúpavogi var kjörsókn um 78% og um 72% í Borgarfjarðarhreppi. Hinum tveimur kjörstöðum lokar klukkan 10 í kvöld og eftir það hefst talning atkvæða á öllum stöðunum.

Á níunda tímanum í kvöld var kjörsókn í Fljótsdalshéraði um 50 – 60% og var um 70% á Seyðisfirði, samkvæmt Birni. Björn er jafnframt formaður samstarfsnefndar um sameiningu.

Ef sameiningin verður samþykkt verður til nýtt sveitarfélag með rúmlega fjögur þúsund íbúa og verður það jafnframt það víðfeðmasta á landinu.  

Í Borgarfjarðarhreppi eru 94 á kjörskrá. Í Djúpavogi eru 315 ár kjörskrá, 509 á Seyðisfirði og flestir eða 2.595 á kjörskrá í Fljótsdalshéraði. 

Niðurstaða kosninganna ætti að liggja fyrir í kringum miðnætti.

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði.
Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is