Læra um falsfréttir og fjölmiðla

Íslenski hópurinn í Ungverjalandi.
Íslenski hópurinn í Ungverjalandi. Ljósmynd/Aðsend

Hópur Verzlinga tekur um þessar mundir þátt í svokölluðu S.W.I.M. verkefni, sem er alþjóðlegt verkefni um styrk- og veikleika fjölmiðla. Kennari hópsins segir verkefnið gott tækifæri fyrir nemendur til að kynnast öðrum menningarheimum. 

„S.W.I.M. verkefnið er það sem kallað er Erasmus+ verkefni. Ísland, Ungverjaland, Þýskaland, Búlgaría og Króatía taka þátt í því. Við erum búin að fara á fundi í Ungverjalandi, Búlgaríu og Króatíu og erum að fara til Þýskalands núna í desember. Síðan verður fundur hjá okkur á Íslandi í mars,“ segir Ármann Halldórsson, kennari við Verzlunarskólann í samtali við mbl.is. 

„Verkefnin byggjast þannig upp að það eru fundir í hverju landi og það eru sex krakkar sem fara frá hverju landi í einu og kennarar sem fara með þeim. Hópurinn vinnur að ákveðnum verkefnum og fá að fara í ferðalög og kynnast löndunum. Krakkarnir gista inni á heimilum í hverju landi þannig að þetta er heilmikil reynsla,“ segir Ármann. 

Skemmtilegast að vinna með falsfréttir

„Þetta hefur gengið mjög vel og krakkarnir taka vel í þetta. Það er alltaf ákveðinn menningarmunur og maður kynnist ýmsu.“

Erasmus+ er sérstakt verkefni á vegum Evrópusambandsins sem miðar að ungu fólki, menntun og íþróttum. Ármann segir Verzlunarskólann reglulega taka þátt í alþjóðlegum verkefnum á vegum Erasmus+. 

„Þema þessa verkefnis er fjölmiðlar. Fyrst unnum við með prentmiðla í Ungverjalandi. Í Búlgaríu var áherslan á útvarpsmiðla og núna síðast í Króatíu vorum við að vinna með falsfréttir og hvernig hægt er að sviðsetja allskonar atburðarrásir og myndir þannig að þær virki samt sannfærandi í pólitískum tilgangi. Það viðfangsefni var líklega skemmtilegast.

„Á Íslandi munum við vinna með kvikmynd sem heitir Nightcrawler og fjallar um það þegar fjölmiðlafólk gengur aðeins of langt og fer að sviðsetja fréttir til að vekja athygli á sér.“

Hentar vel fyrir bekkjarskóla

Ármann segir verkefnið henta vel fyrir bekkjarskóla eins og Verzlunarskólinn er. Verkefnið dreifist yfir tvö af þremur árum nemenda í skólanum og verður þannig stór hluti af menntaskólagöngunni. 

Íslenski hópurinn í Króatíu.
Íslenski hópurinn í Króatíu. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er mjög heppilegt fyrir okkur því við erum bekkjarskóli og það er einn bekkur, listabekkurinn, sem tekur þátt í þessu yfir tvö ár af náminu. Þau fara öll á einn fund erlendis og taka svo á móti gestum á fundinum á Íslandi. Þetta verður í rauninni hluti af þeirra sameiginlegu og persónulegu reynslu af framhaldskóla á meðan krakkarnir í hinum löndunum koma kannski héðan og þaðan og þekkjast ekki fyrir verkefnið.“

Ármann segir nemendur hafa verið jákvæða gagnvart því að kynnast ólíkum menningarheimum í gegnum verkefnið. Viðhorf Íslendinga til ýmissa réttindamála sé ólíkt því sem gengur og gerist í ýmsum löndum Austur-Evrópu. 

„Stelpurnar sérstaklega hafa verið að sýna mikið sjálfstæði. Það eru svolítið önnur viðhorf í Austur-Evrópu og umræðan um feminsma og hinseginmál er öðruvísi. Þær hafa verið duglegar að láta krakkana frá hinum löndunum heyra frá íslenskum viðhorfum,“ segir Ármann, en mikill meirihluti íslenskra þátttakenda í verkefninu eru stelpur.

Fylgjast má með S.W.I.M. verkefninu hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert