Vilja að Herdís og Ólafur láti af störfum

Þórunn Halldórsdóttir, talmeinafræðingur á Reykjalundi, og Ingólfur Kristjánsson, fyrrverandi gigtarlæknir …
Þórunn Halldórsdóttir, talmeinafræðingur á Reykjalundi, og Ingólfur Kristjánsson, fyrrverandi gigtarlæknir á Reykjalundi, vilja að nýja skipuritið verði dregið til baka, að lykilstarfsmennirnir Herdís Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri endurhæfingar, og Ólafur Þór Ævarsson, framkvæmdastjóri lækninga, láti af störfum sem og að starfstjórn verði skipuð yfir Reykjalundi sem hafi faglega þekkingu á starfi Reykjalundar. mbl.is/Kristinn Magnusson

Deilur hafa staðið yfir innan Reykjalundar frá því í sumar. Frá ágústmánuði og þar til nú hefur helmingur lækna sagt upp störfum eða sex af tólf læknum. Tveir læknar til viðbótar hafa gefið yfirlýsingar opinberlega um að þeir muni bætast í þann hóp. Ýmsar útskýringar hafa verið gefnar á því hvers vegna þessi staða er komin upp meðal annars nýtt skipurit sem var innleitt, uppsagnir tveggja einstaklinga og ráðning tveggja nýrra starfsmanna Reykjalundar. Blaðamaður mbl.is ræddi við tvo starfsmenn Reykjalundar, lækni og talmeinafræðing, annar hefur sagt starfi sínu lausu eftir áratugastarf og hinn íhugar stöðu sína. 

Í einfölduðu máli má segja að upphaf ólgunnar á meðal starfsfólks Reykjalundar megi rekja til sumarsins þegar ný staða var búin til, framkvæmdastjóri endurhæfingarsviðs, og hún auglýst laus til umsóknar í júní samkvæmt nýju skipuriti. Herdís Gunnarsdóttir var ráðin í starfið. Í lok september var Birgi Gunnarssyni, forstjóra Reykjalundar, sagt upp störfum og skömmu seinna var Magnúsi Ólasyni, framkvæmdastjóra lækninga, einnig sagt upp. Stjórn SÍBS eigandi Reykjalundar sagði þessum starfsmönnum upp. Eftir það sögðu fimm læknar upp störfum á Reykjalundi, sá fyrsti sagði upp í ágúst þegar ljóst var að Herdís tæki við nýja starfinu. 

„Atburðarásin hefur farið hratt af stað síðustu mánuði. Ef einhver hefði sagt mér að þessi atburðarás myndi fara af stað fyrir hálfu ári hefði ég talið hann galinn,“ segir Ingólfur Kristjánsson, endurhæfingarlæknir fyrrverandi yfirlæknir á gigtarsviði Reykjalundar, sem sagði upp störfum sínum í vikunni. Hann var starfandi sem slíkur í 15 ár en hefur verið með annan fótinn þar síðustu 35 ár eða frá árinu 1984 meðan hann var enn í læknanámi. „Ég treysti mér ekki til þess að vinna með tveimur nýjum lykilstjórnendum og undir hrammi SÍBS. Það gengur ekki,” segir Ingólfur spurður um uppsögn sína. Hann segist geta hugsað sér að koma aftur ef nærveru hans yrði óskað eftir að breytingar verði gerðar á núverandi stjórnarfyrirkomulagi enda beri hann hlýhug til starfsins, samstarfsfólks og vinnustaðarins.

Töldu nýtt skipurit ekki tekið gildi

Þórunn Halldórsdóttir, talmeinafræðingur á Reykjalundi, er sama sinnis um umrótið á vinnustaðnum síðustu mánuði. „Breytingar á Reykjalundi gerast hægt og hafa kannski stundum of hægt en þetta er leifturhraði á breytingum þar sem stór staða er auglýst um mitt sumar þegar allir eru að fara í sumarfrí,” segir hún um breytingar og nýtt skipurit Reykjalundar. Starfsmenn tóku meðal annars þátt í stefnumótunarvinnu að skipuritinu. Drög að skipuritinu voru kynnt fyrir stjórnendum og starfsfólki í júní, að sögn Þórunnar. Hún tók bæði þátt í þeirri vinnu og sat á kynningarfundi þar sem lagðar voru til breytingar meðal annars var ný staða millistjórnanda kynnt, framkvæmdastjóri endurhæfingarsviðs. „Ýmsar spurningar vöknuðu um þessa stöðu, meðal annars hvort til sé starfslýsing á henni, hver er ábyrgð þessa starfsmanns og mannaforráð o.s.frv. Þau svör sem við fengum við þeim spurningum voru ekki skýr og mjög loðin,“ segir Þórunn. Hún taldi að þetta myndi skýrast og taka á sig betri mynd eftir frekari samræður við starfsfólk en sú varð ekki raunin. 

Viku síðar eða 29. júní er þessi nýja staða auglýst. Þetta kom flatt upp á starfsfólk sem taldi að nýja skipuritið hefði ekki tekið gildi. Fagráð Reykjalundar hafði ekki fengið útskýringar eða frekari starfslýsingu á þessu starfi, að sögn Þórunnar.  Þessar sömu athugasemdir við nýja skipuritið komu einnig fram í gagnrýni Magdalenu Ásgeirsdóttur, læknis á Reykjalundi, í samtali við mbl.is fyrr í mánuðinum. 

Atburðarásin byrjaði um leið og staðan var ayuglýst 

Fyrsta auglýsing nýja starfsins var með svo stuttum umsóknartíma að hún var ekki lögleg og því þurfti að auglýsa hana aftur. Þess má geta að á svipuðum tíma eru sumarlokanir í þrjár vikur á Reykjalundi. Fyrrverandi forstjóri Reykjalundar, Birgir Gunnarsson, auglýsti stöðuna lausa til umsóknar án þess að öll framkvæmdastjórn Reykjalundar vissi af því. Þegar staðan var auglýst hafði stjórn SÍBS ekki samþykkt nýja skipuritið en það var ekki gert fyrr en tæpum tveimur mánuðum seinna eða á fundi stjórnarinnar 20. ágúst. Fram kom í viðtali við Svein Guðmundsson, formann SÍBS, að stjórnin samþykkti skipuritið í þeirri trú að sátt ríkti um það meðal starfsmanna, en síðar kom í ljós að svo var ekki.

„Þarna byrjar þessi skrýtni ferill. Hlutir sem ekki eru í takt við neitt annað hér á Reykjalundi,“ útskýrir Þórunn. Ingólfur bendir á að eina starfslýsingin á starfi framkvæmdastjóra endurhæfingarsviðs sé að finna í auglýsingunni sem birtist í lok júní. Þar kemur fram að mannaforráð felist í starfinu sem sé hugsað til að samhæfa sviðin og skipuleggja klínískt starf. Þetta felur í sér að einstaklingurinn sem er ráðinn þurfi að búa yfir þekkingu og reynslu af endurhæfingu, að mati Ingólfs. Í auglýsingunni var ekki gerð krafa um ákveðna fagmenntun eða reynslu af endurhæfingu.

Við ráðninguna var gengið framhjá mörgum umsækjendum sem voru taldir hæfir til að gegna starfinu, eins og það var auglýst, að sögn Ingólfs. Þeirra á meðal voru ýmsir með umtalsverða reynslu af endurhæfingu þar á meðal læknar og sjúkraþjálfarar. „Þess ber að geta að eina starfslýsingin sem við höfum séð fyrir stöðuna er nokkurn veginn það sem við héldum að framkvæmdastjóri lækninga ætti að gera. Við skildum heldur ekki alveg hvers vegna var verið að stofna til þessarar stöðu,” útskýrir Ingólfur. 

Deilur hafa staðið yfir innan Reykjalundar frá því í sumar.
Deilur hafa staðið yfir innan Reykjalundar frá því í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er eins og með hverja aðra stöðu sem er auglýst og ráðið er eftir tilteknu ferli. Hins vegar sárnar okkur rosalega að ekki hafi verið nýtt tækifærið til að fá inn manneskju með klíníska reynslu og endurhæfingarsýn jafnvel utan læknis- eða hjúkrunarstéttar sem nú þegar hafa fulltrúa í framkvæmdastjórn,” segir Þórunn um stöðu framkvæmdastjóra endurhæfingar. „Það verður að segjast að þessi ráðning fer ekki vel í mannskapinn. Okkur fannst vera ráðinn einstaklingur sem hvorki hefur menntun né reynslu af þverfaglegri endurhæfingu og því ekki hæfur til þess að leiða þróun endurhæfingar á Reykjalundi og mögulega sameiningu teyma,” segir Þórunn ennfremur.

Undir þetta tekur Ingólfur. Þrátt fyrir óánægju með ráðninguna, segir Þórunn að flestir hafi ætlað sér að taka þessu með opnum hug. „Rétt áður en hún kemur inn kemur útspil SÍBS að reka forstjórann. Vissulega höfðu margir starfsmenn gagnrýnt hann fyrir ákveðnar ákvarðanir en þetta útspil var alveg úr takti við venjuleg vinnubrögð,“ segir Þórunn. „Manni leið eins og einhver glæpur hefði legið á bak við uppsögnina en svo var ekki,“ segir Ingólfur og furðar sig á vinnubrögðum SÍBS.  

Þórunn útskýrir að þrátt fyrir framgöngu forstjórans í þessu tiltekna máli töldu flestir að hægt væri að leysa málin með því að ræða þau frekar eins og siðmenntað fólk gerir þegar upp koma mál sem óeining ríkir um. Þau eru bæði sammála um að fyrrverandi forstjóri hafi verið mjög vel liðinn fram að þessari ákvörðun að auglýsa fyrrgreint starf. Hann hafi ekki síst átt stóran þátt í því að Reykjalundur hafi verið valinn fyrirmyndarstofnun í nokkur ár, að mati þeirra.  

Gagnrýni starfsmanna er á skipuritið sem var samþykkt þrátt fyrir athugasemdir starfsmanna. Skipuritið hefur ekki verið dregið til baka heldur fylgdu tvær uppsagnir með þeim, annars vegar forstjórans og hins vegar Magnúsar Ólasonar fyrrverandi framkvæmdastjóra lækninga, sem hafði gagnrýnt framgöngu SÍBS, að sögn Ingólfs. „Þegar hann var rekinn var það dropinn sem fyllti mælinn. Þetta sýnir svo mikið skilningsleysi á starfseminni,” segir Þórunn.

Báðu Ólaf Þór að taka ekki við starfinu

Starf Magnúsar, framkvæmdastjóra lækninga, hafði þegar verið auglýst og sótti einn læknir um þá stöðu og var þá ráðinn. Það er Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir, eins og fram hefur komið. Gerð var krafa um að sá sem gegndi þeirri stöðu væri með „íslenskt sérfræðileyfi í endurhæfingarlækningum og/eða reynslu á sviði endurhæfingarlækninga“. Þetta skilyrði telja starfandi læknar á Reykjalundi að Ólafur Ævarsson uppfylli ekki. Fyrr í mánuðinum sendi Félag íslenskra endurhæfingarlækna frá sér yfirlýsingu þar sem félagið furðar sig á því að ekki sé gerð krafa um íslenskt sérfræðileyfi í endurhæfingarlækningum við auglýsingu á stöðu framkvæmdastjóra lækninga á stærstu endurhæfingarstofnun á Íslandi. 

Læknaráð Reykjalundar átti mjög hreinskiptinn fund með Ólafi Þór áður en hann tók til starfa. Á þeim fundi var óskað eftir því að Ólafur tæki ekki við þessu starfi. „Við báðum hann um að taka ekki við þessari stöðu, daginn áður en hann átti að taka við. Hann hafi hvorki það traust né þá faglegu yfirsýn, sem þarf, til að leiða þverfaglega endurhæfingarstofnun á umrótstímum,“ segir Ingólfur. Starfsmenn höfðu áður óskað eftir því að heilbrigðisyfirvöld myndu koma að rekstri stofnunarinnar. Ef Ólafur tæki stöðuna töldum við ekki að heilbrigðisyfirvöld myndu grípa inn í að minnsta kosti ekki eins fljótt og nauðsyn krefði. Þetta virðist vera að koma á daginn bætir Ingólfur við.    

„Í stjórn SÍBS, sem er stjórn Reykjalundar, situr ekki fólk sem hefur þekkingu á endurhæfingu,” segir Ingólfur. Hann telur ekki tækt að stjórn SÍBS geti stigið inn í starfsemi Reykjalundar með þessum hætti og vill að breyting verði gerð á stjórnarháttunum. Fram til ársins 2008 skipaði heilbrigðisráðherra fulltrúa í stjórn Reykjalundar en það ár felldi þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, reglugerðina úr gildi. Ingólfur segir mikilvægt að hið opinbera verði að koma að málum sérstaklega þar sem Sjúkratryggingar Íslands kaupi þjónustu af Reykjalundi fyrir um 2 miljarða á ári. Eins og málin líta út sé ekki hægt að tryggja gæði þjónustunnar.

Skýr krafa um að breytingar verði dregnar til baka

Krafa Ingólfs og Þórunnar, er skýr; að nýja skipuritið verði dregið til baka, að lykilstarfsmennirnir Herdís Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri endurhæfingarsviðs og settur forstjóri, og Ólafur Þór Ævarsson, framkvæmdastjóri lækninga, láti af störfum sem og að starfstjórn verði skipuð yfir Reykjalundi sem hafi faglega þekkingu á starfi Reykjalundar. Þau eru sammála um að ef nýju stjórnendurnir láti af störfum myndi það létta spennustigið til muna enda beri starfsfólk almennt ekki traust til þeirra. 

Ingólfur tekur fram að ákvörðun um að segja upp á Reykjalundi hafi ekki verið léttvæg og honum sárnar að horfa upp á allt það góða starf sem hefur verið unnið í áranna rás liðast í sundur. „Grundvöllur starfsins á Reykjalundi eru endurhæfingarteymin. Vinna þeirra hefur skilað því góða starfi sem hefur gefið Reykjalundi gott orðspor sem endurhæfingarstofnun. Uppbygging teymanna hefur tekið langan tíma en auðvelt er að glutra niður þessu faglega starfi á mjög stuttum tíma,“ segir Ingólfur. 

mbl.is