Vill jarðgöng á Tröllaskaga

Öxnadalsheiði er oft illfær að vetri til.
Öxnadalsheiði er oft illfær að vetri til. Mynd/Vegagerðin

Stefán Vagn Stefánsson, varaþingmaður Framsóknarflokksins lagði í vikunni fram þingsályktunartillögu þess efnis að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra láti hefja vinnu við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga.

Lagt er til að ráðherra skili Alþingi skýrslu með niðurstöðum fyrir árslok 2020.

Stefán Vagn Stefánsson.
Stefán Vagn Stefánsson. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Göngin yrðu á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar en með þeim myndi fólk sleppa við að aka Öxnadalsheiðina. Stefán bendir á að vegurinn um hana liggi hæst í 540 metra hæð og vegalengdir á milli þéttbýlisstaða á Norðurlandi yrðu styttri. 

Auk þess myndi fólk sleppa við að aka Vatnsskarðið eins og það er í dag en þess í stað fara um Þverárfjallsveg. Göngin kæmu úr Hjaltadal og yfir í Eyjafjörð.

Stefán bendir á að bæjarstjórnir beggja vegna Öxnadalsheiðar, á Akureyri og í Skagafirði, hafi fyrr á árinu skorað á stjórnvöld að skoða þennan möguleika. 

Eins og rakið hefur verið myndu göng undir Tröllaskaga fela í sér gríðarlega samgöngubót fyrir íbúa Norðurlands og aðra sem þar fara um. Öryggi vegfarenda yrði stórbætt auk þess sem slík framkvæmd myndi m.a. leiða af sér stækkun vinnusóknarsvæða og eflingu ferðaþjónustu á svæðinu,“ segir í tillögu Stefáns.

mbl.is