Það kom smá hola í hjartað

„Það kom alveg smá hola í hjartað. Eftir að hafa lesið þetta líður manni frekar illa. Maður vill gera hvað sem er til að hjálpa, bara fara þangað. Auðvitað skiptir þetta mig máli. Þetta ætti ekki að vera til í heiminum. Þetta segir Erlen Ísabella Einarsdóttir 13 ára eftir að hafa lesið frásögn Patriciu, malavískrar stúlku, sem þvinguð var í hjónaband á barnsaldri. 

Á föstudaginn stendur UN Women á Íslandi fyrir  landsöfnuninni Stúlka - ekki brúður þar sem sjónum er beint að þvinguðum barnahjónaböndum sem eru ein útbreiddasta birtingarmynd kynbundins ofbeldis.

Erlen Ísabella er ein þriggja stúlkna sem les frásögn Patriciu á myndbandi sem birt er til að kynna söfnunina, hinar tvær heita Linda Ýr Guðrúnardóttir og Vala Frostadóttir. Þær eru báðar 12 ára.

Ég heiti Patricia. Ég þurfti að giftast ......

„Ég heiti Patricia. Ég þurfti að giftast vegna fátæktar fjölskyldu minnar. Ég hafði ekkert val. Ég sakna þess að mæta í skólann. Það eina sem ég elskaði í lífinu var skólinn.“ Á þennan hátt hefst frásögn Patriciu sem síðan segist hafa neyðst til þess að hætta í skóla. Hún er enn gift í dag, á barn og eygir litla von um bjartari framtíð.

Patricia er meðal þeirra 12 milljóna stúlkna sem þvingaðar eru í hjónaband á ári hverju. Það þýðir að á hverri mínútu eru 23 barnungar stúlkur þvingaðar í hjónaband, samkvæmt upplýsingum frá UN Women. Hún er ein þeirra stúlkna sem rætt var var við í heimsókn UN Women á Íslandi ásamt tökuteymi og Þóru Karítas Árnadóttur til Malaví. Tilgangurinn var að kynna sér áhrif þessa skaðlega siðar á stúlkur og malavískt samfélag.

Mér finnst enginn vera að stoppa mig

Í myndbandinu bera stúlkurnar  sinn daglega veruleika saman við þann sem Patricia býr við. „Mér finnst enginn vera að stoppa mig í að halda áfram með mína drauma,“ segir Linda Ýr. 

„Það skiptir mig mjög miklu máli að enginn sé að stoppa mig og stjórna lífi mínu,“ segir Vala

Söfnunin verður í beinni útsendingu á RÚV og þar verður almenningur hvattur til að gerast Ljósberar UN Women.

Þetta er fyrsta myndbandið af nokkrum sem sýnt verður í tengslum við landsöfninuna og UN Women á Íslandi vann myndböndin í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Freyja Filmwork. Leikstjóri myndbandanna er Dögg Mósesdóttir, Birta Rán Björgvinsdóttir sá um upptökur og María Rún Jóhannsdóttir sá um hljóð og lýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert