Lýsti yfir neyðarástandi

Flugvélar Icelandair.
Flugvélar Icelandair.

Flugstjóri flugvélar Icelandair, sem var að koma frá Seattle og lenti á flugbraut á Keflavíkurflugvelli í morgun þar sem lítil flugvél var fyrir, lýsti yfir neyðarástandi til þess að fá forgang til lendingar. Þetta segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair. 

Vélin var ein þriggja flugvéla Icelandair sem allar voru að koma frá Bandaríkjunum snemma  í morgun. Tveggja manna flugvél hafði komið inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli um 6-leytið, runnið út af flugbrautinni og hafnað í kanti við enda hennar. Hin flugbraut Keflavíkurflugvallar var lokuð tímabundið vegna ísingar og því var tveimur vélanna sem voru að koma frá Bandaríkjunum beint á Akureyrarflugvöll.

Þeirri þriðju sem var vélin frá Seattle, var beint til Reykjavíkur, en hún hafði þegar lækkað flugið yfir Keflavíkurflugvelli og var í svokölluðu biðflugi; þ.e. var komin í lægri flughæð og flugstjóri beið þess að fá tilkynningu um lendingartíma. 

Gat ekki lent í Reykjavík

„Varaflugvöllur samkvæmt flugáætlun fyrir flugið sem um ræðir var Reykjavíkurflugvöllur. Á því augnabliki sem vélin kemur inn til lendingar í morgun voru lendingarskilyrði á Reykjavíkurflugvelli hins vegar ekki ákjósanleg vegna hálku og mat flugstjóri það því þannig að öruggara væri að lenda í Keflavík,“ segir Ásdís Ýr. Hún segir að varaflugvellir séu alltaf skilgreindir fyrir hverja og eina flugferð áður en hún hefst og varaflugvöllur hinna tveggja vélanna hafi verið Akureyrarflugvöllur.

Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair Group.
Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair Group. Ljósmynd/Aðsend

Ásdís Ýr segir að ekki hafi verið ljóst hversu langan tíma vélin þyrfti að vera í biðflugi þangað til aðstæður á Reykjavíkurflugvelli yrðu komnar í lag. „Flugstjóri tók því þessa ákvörðun út frá aðstæðum og eldsneytisstöðu vélarinnar. Til þess að fá lendingarleyfi í Keflavík þar sem flugbraut var lokuð, þurfti flugstjóri því að lýsa yfir neyðarástandi til þess að fá forgang til lendingar,“ segir Ásdís og bætir við að ekki hafi verið hætta á ferðum.

Hún segir að eldsneyti á vélinni hafi, í upphafi flugferðarinnar, verið eins og áskilið sé samkvæmt reglum. Þar sem hvorki var hægt að lenda á varaflugvellinum Reykjavíkurflugvelli né á annarri flugbraut Keflavíkurflugvallar og óvíst hversu lengi vélin ætti að vera í biðstöðu, hafi flugstjórinn tekið þessa ákvörðun út frá eldsneytisstöðu.

Spurð hversu oft neyðarástandi sé lýst yfir í vélum Icelandair segist hún ekki vera með upplýsingar um það handbærar. 

Vélar Icelandair á Akureyrarflugvelli í morgun.
Vélar Icelandair á Akureyrarflugvelli í morgun. Ljósmynd/Isavia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert