Málið litið alvarlegum augum

„Málið er litið mjög alvarlegum augum af hálfu Seðlabanka Íslands. Innan bankans hefur allt verið gert til þess að upplýsa það. Forsætisráðherra og bankaráði Seðlabankans var greint frá niðurstöðum rannsóknar innri endurskoðunar. Seðlabankinn telur jafnframt eðlilegt að forsætisráðuneytið hafi upplýst lögreglu um þessa sömu niðurstöðu.“

Þetta segir í skriflegu svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurn frá mbl.is um viðbrögð bankans við þeirri ákvörðun forsætisráðherra að vísa til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu máli varðandi ætlaðan upplýsingaleka frá honum til Ríkisútvarpsins í tengslum við húsleit hjá útgerðarfyrirtækinu Samherja árið 2012.

„Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hefur rannsókn innri endurskoðanda Seðlabankans leitt í ljós að starfsmaður Seðlabankans og fréttamaður Ríkisútvarpsins áttu í samskiptum áður en húsleit fór fram hjá Samherja hf. og tengdum aðilum. Nánar tiltekið fólust samskiptin í því að fréttamaðurinn sendi uppkast að frétt með tölvupósti þar sem húsleitarinnar var getið – daginn áður en hún fór fram,“ segir ennfremur og áfram:

„Rannsókn bankans sýndi hins vegar að þessum pósti var ekki svarað. Það er því ekkert sem liggur fyrir um að upplýsingum hafi verið lekið frá Seðlabankanum enda ljóst að téð húsleit var á vitorði margra. Forsætisráðuneytið upplýsti lögreglu um niðurstöður rannsóknar Seðlabankans hvað þetta varðar án þess þó að í því hafi falist nokkur efnisleg afstaða eins og fram kemur í bréfi ráðuneytisins.“

Fram kemur ennfremur í svarinu að forsvarsmönnum Samherja hafi verið greint frá niðurstöðum rannsóknar innri endurskoðunar Seðlabankans. „Þau bréf sem vitnað hefur verið til í fjölmiðlaumræðu eru málskjöl sem Seðlabankinn hefur að eigin frumkvæði lagt fram í því skaðabótamáli sem höfðað hefur verið vegna málareksturs bankans á hendur Samherja hf. Að öðru leyti telur Seðlabankinn rétt að frekari umfjöllun um málið eigi sér stað undir rekstri málsins hjá dómstólum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert