„Sorg og vonbrigði“

Reykjalundur. Fleiri læknar sögðu þar upp í dag.
Reykjalundur. Fleiri læknar sögðu þar upp í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Okkar fyrstu viðbrögð eru sorg og vonbrigði. Við munum leggja allt í að starfsemin geti haldist óbreytt,“ segir Guðbjörg Gunnarsdóttir, mannauðsstjóri Reykjalundar en í dag bættist í hóp þeirra lækna sem sagt hafa upp störfum þar.

Hún segir að enn hafi ekki verið auglýst eftir læknum, það verði að öllum líkindum gert næstu helgi og að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort eingöngu verði auglýst eftir þeim hér á landi eða einnig erlendis.

Í dag sögðu læknarnir Magda­lena Ásgeirs­dótt­ir og Karl Kristjáns­son upp störfum og þar með hafa átta læknar á Reykjalundi lagt inn uppsagnarbréf. Bæði Magdalena og Karl gegna störfum yfirlækna, Magdalena á Miðgarði sem er hjúkrunardeild og Karl hefur verið yfirlæknir á greiningarsviði og hjartasviði. 

Ekki uppsagnir frá öðrum starfsstéttum

Spurð hvort fólk í öðrum störfum á Reykjalundi hafi sagt upp, segir Guðbjörg svo ekki vera. 

Ástæða uppsagna læknanna er óánægja með afskipti stjórnar SÍBS af starfsemi Reykjalundar, en læknar hafa gagnrýnt að „áhugamannafélag á borð við SÍBS“ stýri stofnun sem veiti þjónustu sem greidd er af almannafé. Þá hefur stjórn SÍBS verið sökuð um hroka og virðingarleysi gagnvart starfsfólki og að bera ekki skynbragð á mikilvægi þeirrar starfsemi sem fram fer á Reykjalundi.

Guðbjörg segir að af þeim átta læknum sem sagt hafi upp störfum hyggist allir nema einn vinna uppsagnarfrest, sem er þrír mánuðir. „Þau munu, að öllu óbreyttu, láta af störfum í lok janúar á næsta ári, “segir Guðbjörg. 

mbl.is