Tveir læknar til viðbótar segja upp á Reykjalundi

Reykjalundur. Tveir læknar til viðbótar hafa sagt upp þar.
Reykjalundur. Tveir læknar til viðbótar hafa sagt upp þar. Eggert Jóhannesson

Tveir læknar til viðbótar, báðir yfirlæknar, hafa sagt upp störfum á Reykjalundi. Þar með hafa átta læknar sagt upp störfum undanfarið og fleiri eru sagðir íhuga uppsagnir. Læknarnir tveir eru þau Magdalena Ásgeirsdóttir, yfirlæknir á Miðgarði og endurhæfingarlæknir, og Karl Kristjánsson, yfirlæknir á greiningarsviði og hjartasviði.

„Ég lagði inn uppsagnarbréf mitt til mannauðsstjóra og forstjóra í morgun og sendi samstarfsfólki mínu tölvupóst,“ segir Karl sem segir að þetta hafi verið erfið ákvörðun, en hann hafi ekki talið sig eiga annars úrkosti. „Þetta var ekki létt ákvörðun, ég hef unnið hér í 16 ár. Þetta er frábær vinnustaður, hér er gott að vera en það hafa heilmiklar breytingar orðið með afskiptum stjórnar SÍBS.“

Fjórir til viðbótar íhuga uppsagnir, segir Karl

Karl segist hafa óskað eftir því að vinna uppsagnarfrest sinn sem er þrír mánuðir. „Ég geri það af tillitssemi við samstarfsfólk mitt og sjúklinga mína. En ég er svo sem ekki með neina aðra vinnu að ganga í,“ segir hann.

Spurður hvernig hann sjái framtíð Reykjalundar fyrir sér segir Karl augljóst að þar verði ekki hægt að veita þá þjónustu sem hingað til hafi verið veitt. „Ef allir læknar á Reykjalundi eru taldir, líka þeir sem eru í hlutastarfi, þá eru þeir um 15. Átta hafa sagt upp og ég veit um fjóra í viðbót sem eru að íhuga það,“ segir Karl.

mbl.is