Verður einhver blanda af flugvélum

AFP

„Heildarmyndin er sú að í fyrstu ferðunum sem við fljúgum, hvenær sem það verður sem vonandi mælist í vikum en mánuðum þó ýmislegt hafi verið og sé seinlegra en við áttum von á, þá verður mikil áhersla lögð á að fljúga með ferskan fisk.“

Þetta segir Gunnar Steinn Pálsson, talsmaður USAerospace Associates LLC en félagið hyggst endurreisa flugfélagið WOW air. Vísar hann til þess að umsvif félagsins fyrir bandarísk stjórnvöld séu þegar töluverð og fyrir vikið sé gert ráð fyrir talsverðum flutningum til Keflavík fyrir þau. Tilvalið sé þá að nýta vélarnar til baka fyrir sjávarafurðir.

Hvað varðar fyrri ummæli hans um flutning á þorskhausum til Bandaríkjanna frá Íslandi segir Gunnar aðspurður að það hafi nú verið sagt til gamans og hlær. Hins vegar sé, sem fyrr segir, horft til tækifæra varðandi flutning íslenskra sjávarafurða þangað.

Fyrstu flugferðirnar með farþega verði á milli Keflavíkur og Washington. „Ef það er til dæmis tiltölulega fátt fólk í byrjun í farþegarýminu þá er bara meira pláss fyrir frakt í farangursrýminu. Að öðru leyti er ekkert verið að skipta um áherslur. Fraktflugið hefur alltaf verið stór breyta í málinu fyrir okkur og verður það áfram.“

Keflavík hugsanlega flutningamiðstöð

Verið sé núna að prufukeyra fyrirkomulagið að sögn Gunnars Steins. Mikilvægast sé að hans mati að koma flugvélunum í loftið en ekki hvort nýtingin á farþegarýminu verði 40% eða 80% í byrjun eins og áður hefur komið fram. „Við erum að tala samt sem áður um að fljúga strax frá byrjun í fjólubláa litnum og með farþega,“ segir hann.

Markmiðið sé að nota að hluta til venjulegar farþegaflugvélar en að einhverju leyti verði væntanlega um að ræða eiginlegar fraktflugvélar. „Þetta er bara ekki komið alveg á hreint ennþá, þetta verður einhver blanda af þessu.“ Spurður hvaða flutninga fyrir bandarísk stjórnvöld hingað til lands sé um að ræða segir Gunnar Steinn:

„Ég hef ekki spurt að því nákvæmlega og þar af leiðandi veit ég ekki svarið.“ Hins vegar segir hann að það liggi fyrir að umræddir aðilar flytji mikið fyrir bandarísk stjórnvöld. Meðal annars til Evrópu og niður til austurstrandar Afríku. „Það liggur í augum upp að Keflavík gæti hugsanlega verið notuð sem miðstöð fyrir þessa flutninga.“

Michele Ballarin fer fyrir USAerospace Associates LLC.
Michele Ballarin fer fyrir USAerospace Associates LLC. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert